Nýlegt samþykkishugtak í nauðgunarmálum fyrir Hæstarétt

Hæstiréttur mun taka fyrir málið, en talið er að úrlausn …
Hæstiréttur mun taka fyrir málið, en talið er að úrlausn þess geti haft verulega almenna þýðingu þegar kemur að samþykkishugtaki 194. greinar almennra hegningarlaga, en það var sett inn í lögin árið 2018. mbl.is/Oddur

Hæstiréttur hefur ákveðið að samþykkja málskotsbeiðni karlmanns sem fundinn var sekur í Landsrétti um að hafa nauðgað fyrrverandi kærustu sinni árið 2019. Hlaut maðurinn þriggja ára dóm, en áður hafði héraðsdómur sýknað manninn þar sem ekki þótti sannað gegn neitun mannsins og miðað við framburð konunnar og vitna að um nauðgun væri að ræða.

Samþykki í forgrunni í nýju lögunum

Landsréttur sneri dóminum m.a. annars við með vísun í breytingar á nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga (194. gr.), en lögunum var breytt árið 2018 eftir að frumvarp þingmannsins Jóns Steindórs Valdimarssonar í Viðreisn hafði tvisvar áður ekki hlotið afgreiðslu þingsins. 

Breyting laganna fól meðal annars í sér að samþykki verði í forgrunni skilgreiningar á nauðgun og þannig horfið frá megináherslu á verknaðaraðferð við nauðgun. Þess í stað var aukin áhersla lögð á kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklings með því að skilgreina nauðgun út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi eða ekki. 

Beitti konuna mikilli hörku og ofbeldi

Í málinu sem um ræðir taldi Landsréttur, með vísan í breyttu löggjöfina, að ekki yrði fallist á þau sjónarmið mannsins að hann hefði réttmæta ástæðu til að ætla að konan hefði verið samþykk ofbeldisfullum kynferðismökum sem ákært var fyrir. Kemur meðal annars fram að hann hafi klipið hana, slegið hana í andlit og líkama, bitið hana, togað í hár hennar og tekið hana kverkartaki meðan á samræði þeirra stóð. Voru greinilegir áverkar á konunni sem samsvöruðu sér lýsingunni sem hún gaf á ofbeldinu.

Sagði í dómi Landsréttar að þvert á móti yrði talið að hann hefði í engu skeytt um raunverulegan vilja konunnar til að stunda með honum kynferðismök þar sem þeirri hörku og því mikla ofbeldi sem hann viðhafði gagnvart henni. Segir í dómi Landsréttar að hann hafi með augljósum hætti brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi hennar.

Úrlausn málsins hafi verulega almenna þýðingu

Í ákvörðun Hæstaréttar kemur fram að maðurinn fari fram á að fallist verði á málskotsbeiðni hans til réttarins þar sem Landsréttur hafi snúið sýknudómi úr héraði í sakfellingu og þá hafi það verulega almenna þýðingu að fá úrlausn um túlkun á samþykkishugtaki 194. greinarinnar, enda hafi ekki reynt á túlkun hennar fyrir Hæstarétti með þeim hætti sem tekist er á um í málinu áður.

Fellst Hæstiréttur á þetta og segir í ákvörðuninni að heimila skuli málskot til Hæstaréttar þegar dómi hafi verið snúið í sakfellingu í Landsrétti nema að Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, en Hæstiréttur segir að í þessu máli sé ekki hægt að slá því föstu og þá verði að telja að úrlausn málsins kunni að hafa verulega almenna þýðingu.

Í málinu hafði einnig verið ákært fyrir stórfellt brot í nánu sambandi, en bæði héraðsdómur og Landsréttur töldu ekki að samband þeirra uppfyllti skilyrði þannig að brot hans myndu falla þar undir.

Fyrir breytingu laganna var 1. mgr 194. gr. almennra hegningarlaga eftirfarandi:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.

Eftir breytinguna árið 2018 var lagagreinin svohljóðandi:

Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert