Reiknar með að fara sjálfur til Rússlands

Úkraínskir hermenn í Lúhansk ásamt föllnum rússneskum hermanni.
Úkraínskir hermenn í Lúhansk ásamt föllnum rússneskum hermanni. AFP

„Þetta er sjóður sem er fjármagnaður af rússneska ríkinu. Ég hef ekki meiri upplýsingar um hann en það að ég er í góðum kunningsskap við þann sem stjórnar sjóðnum. Það er einn af ráðherrum sjálfstjórnarhéraðs Vasilkív.“

Þetta segir Konráð Magnússon, en hann sendi boðsbréf á tíu íslenska fjölmiðla í dag um að heimsækja Lúhansk-hérað í Úkraínu þar sem atkvæðagreiðsla mun fara fram á næstu dögum.

Þá verður kosið um hvort íbúar Donbas-svæðisins, það er í héruðunum Donetsk og Lúhansk, vilji verða hluti af Rússlandi eður ei.

Spurður hver stýri sjóðnum segist Konráð ekki vilja gefa upp nafnið.

„Ég er ekki búinn að spyrja viðkomandi hvort ég megi gefa upp nafnið. Geri það ekki fyrr en á morgun þegar við hittumst, eða eftir morgundaginn, veit ekki alveg hvenær.“

„Rússland mitt annað heimili

Konráð er búsettur á Íslandi en kallar Rússland sitt annað heimili. Fyrrverandi eiginkona hans er rússnesk og hefur hann búið þar af og til frá aldamótum og talar góða rússnesku.

„Ég fer fyrst til Rússlands 2002 og kynnist þá þáverandi konu minni. Ég var mikið úti meðan hún var að klára nám. Ég bjó þar eins og ég gat miðað við dvalarleyfi. Í framhaldi af því hef ég verið mikið úti í Rússlandi og eignast þar vini og kunningja, bæði frá Rússlandi og Úkraínu, þar sem þetta er nú eiginlega það sama,“ segir Konráð.

Spurður hvort hann hafi einhver tengsl við íslensku utanríkisþjónustuna eða stjórnvöld svarar Konráð neitandi. Hann sé bara venjulegur maður að gera vinafólki sínu í Rússlandi greiða.

„Í þessu tilfelli sagði ég það strax að þetta væri lítil fyrirvari en að ég myndi gera allt sem ég gæti. Að öllu jöfnu hefði ég ekki farið þessa leið. Ég hefði spurt hvern og einn mann fyrir sig.“

„En ég leit þannig á að með því að senda boðsbréf á þessa stóru fjölmiðla og fá þá þannig til að skrifa frétt að þá væri ég í rauninni að búa til auglýsingu fyrir sjálfstætt starfandi blaðamenn sem hefðu möguleika áhuga á að koma.“

Úkraínskur hermaður í fallbyssu í Mikolív-héraðinu í fyrradag.
Úkraínskur hermaður í fallbyssu í Mikolív-héraðinu í fyrradag. AFP/Genia Savílov

Ætlar að fara sjálfur ef enginn þiggur boðið.

Konráð segir að enginn íslenskur fjölmiðill hafi þegið boðið eins og stendur. Þá sé búið hringja töluvert í hann og spyrja nánar út í ferðina. Hann bjóst ekki við að stóru fjölmiðlarnir myndu þiggja boðið enda hafi það verið sent með stuttum fyrirvara.

„Í þessu tilfelli er það kunningsskapur og vinskapur sem veldur því að talað er við mig í þeirri von að það komi einhver óháður og skrifi frétt um þennan atburð. Eins og ég er búinn að skýra út fyrir mönnum eru fréttir frá þessum svæðum oft teknar að utan og þýddar af íslenskum fjölmiðlum sem vita ekki hvað er raunverulega í gangi.“

Blaðamaður nefnir við Konráð að fjölmiðlar á Íslandi séu með tengsl við aðra Íslendinga sem staddir eru á svæðum í Úkraínu þar sem eru stríðsátök. Til að mynda hefur ljósmyndarinn Óskar Hallgrímsson verið reglulega í sambandi við mbl.is og Morgunblaðið, og tekið myndir fyrir báða miðla.

Kveðst hlutlaus í stríðinu

Hvað ef enginn íslenskur fjölmiðill þiggur boðið, verður þá ekki farið?

„Ég reikna með að fara bara sjálfur. Ég sagði þeim að tala við mig aftur klukkan 18, og ef að ég væri ekki búinn að fá neinn fyrir þann tíma þá væri ég búinn að gefa það upp á bátinn að einhver færi,“ segir Konráð. 

„Ef ég fer þá, og ég er ekki búinn að fá það staðfest eða ákveða það sjálfur. Ég get farið ef ég vil en ég er ekki búinn að ákveða mig.“ Konráð segist vera hlutlaus í stríðinu og eiga bæði vini frá Úkraínu og Rússlandi. 

„Ég tók þá ákvörðun strax og ég flutti til Rússlands að gerast ekki pólitískur. Það hefur ekkert upp á sig nema leiðindi og flækjur. Það eina sem ég vil er að fólk fái réttar fréttir. Ég veit að í stríði að þá er sannleikurinn fljótur að hverfa og að báðir aðilar skrifi það sem hentar hverjum fyrir sig.

Bygging í Donetsk-héraði þar sem Rússar hafa ráðst inn í …
Bygging í Donetsk-héraði þar sem Rússar hafa ráðst inn í landið. AFP/Juan Barreto

Fréttamönnum frjálst að tala við venjulegt fólk

Konráð er spurður hvort ekki sé hætta á því, í ljósi þess að ferðin er fjármögnuð af rússneskum sjóði, að myndin sem verði dregin upp af svæðinu verði rússneskum stjórnvöldum í hag.

„Jú, ég held það sé alveg rétt hjá þér,“ segir hann og bætir við:

„Þess vegna spurði ég nákvæmlega út í þetta hvort að fréttamenn þyrftu að fara í sérstakt prógram eða hvort þeim væri frjálst að tala við venjulegt fólk á eigin vegum. Þá var það alveg skýrt að það er engin stjórn á þessu nema að því leytinu til að öryggisgæslan leyfi fólki auðvitað ekki að fara hvert sem er.“

Þá á vígvelli?

„Já. Þetta eiga fréttamenn auðvitað að sjá í gegnum og velja rétta fólkið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka