Haustlitirnir setja nú svip sinn á náttúruna eins og sést á myndinni sem tekin var í Elliðaárdal í gær. Haustjafndægur verða næstu nótt klukkan fjórar mínútur yfir eitt.
Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári, á vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á haustjafndægri 21.-24. september.
Um þetta leyti er dagurinn um það bil jafnlangur nóttinni hvar sem er á jörðinni, og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum.