Uppruna aðgerða ríkislögreglustjóra í gær, þar sem fjórir voru handteknir af sérsveitinni, má rekja til rannsóknar á ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum.
Mennirnir eru íslenskir karlmenn á þrítugsaldri og hafa legið undir grun um ætlaða framleiðslu skotvopna. Lagt hefur verið hald á tugi skotvopna, hálfsjálfvirkra þar á meðal, ásamt þúsundum skotfæra. Tveir af þeim einstaklingum sem voru handteknir í gær hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Annar í tvær vikur og hinn í eina.
Samfélagið okkar er nú öruggara en það var, að mati lögreglu.
Við rannsókn lögreglu komu fram upplýsingar sem leiddu til gruns um að í undirbúningi væru árásir gegn borgurum ríkisins og stofnunum þess.
Þetta kom fram á upplýsingafundi ríkislögreglustjóra sem var boðaður í dag vegna umfangsmikilla rannsókna og aðgerða embættisins.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá héraðssaksóknara, voru á fundinum.
Í gær var greint frá aðgerðum sérsveitarinnar á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu og í kjölfarið tilkynnti ríkislögreglustjóri að sérsveitin og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefðu handtekið fjóra einstaklinga. Sagði lögreglan að þar með hefði hættuástandi verið afstýrt.
Tveir þeirra sem voru handteknir voru taldir vopnaðir og hættulegir umhverfi sínu.
Í tilkynningu frá lögreglu kom fram að rannsóknin snúi að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum.