Hefur þýðingu fyrir kynferðisbrotamál

Aukin áhersla er á sjálfsákvörunarrétt og kynfrelsi í hinu nýja …
Aukin áhersla er á sjálfsákvörunarrétt og kynfrelsi í hinu nýja ákvæði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það hefur mikla almenna þýðingu að Hæstiréttur muni í fyrsta sinn skýra samþykkishugtak í nýju og breyttu nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga. Þetta segir Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara.

Nú er lögð aukin áhersla kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétt einstaklings með því að skilgreina nauðgun út frá því hvort samþykki hafi verið fyrir hendi eða ekki. Ákvæðinu var breytt árið 2018.

Hæstiréttur samþykkti nýverið að taka til meðferðar mál karlmanns sem var í Landsrétti dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun.

Sýkna í héraði eykur líkur á áfrýjunarleyfi

„Það var sýknað í héraði og Landsréttur sakfelldi. Í slíkum tilvikum eru auknar líkur á að mál verði tekin fyrir í Hæstarétti,“ segir Margrét.

Ef Hæstiréttur mótar fordæmi í þessu máli, mun það hafa áhrif inn í réttarkerfið?

„Já, þar sem dómar Hæstaréttar eru réttarheimild. Þeir hafa mikla þýðingu inn í túlkun á lögunum,“ segir Margrét. Inntak samþykkishugtaksins verði útskýrt og umfjöllunin gæti orðið nokkuð fræðileg líkt og tíðkast í dómum Hæstaréttar.

Hæstiréttur litið til skorts á samþykki

Margrét bendir á að samþykkishugtakið hafi áður komið til kasta Hæstaréttar, í máli 30/2020, eftir að nýja nauðgunarákvæðið tók gildi. Þá hafði brotið þó átt sér stað áður en lögin tóku gildi og því sé óhætt að segja að nú reyni á ákvæðið í breyttri mynd í fyrsta skipti.

Þá var fjallað um nauðgunarákvæðið og talið að ólögmæt nauðung hafi í raun falið í sér skort á samþykki en ekkert ofbeldi né hótanir áttu sér stað í því máli.

Með breyttu ákvæði sé samþykkið hins vegar sett í forgrunn og því muni málið hafa almenna þýðingu líkt og á við dóma Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert