Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að málflutningur Framsóknarflokksins væri ekki í samræmi við áætluð fjárlög ríkisstjórnarinnar.
Hún beindi gagnrýni sinni til Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðaráðherra og formanns Framsóknarflokksins.
„Hæstvirtur innviðaráðherra sagði í útvarpsviðtali um helgina að hann vildi skoða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, skattleggja í ríkara mæli sjávarútvegsfyrirtæki, fjármálafyrirtæki og aðila sem hagnast umfram það sem eðlilegt er og sanngjarnt,“ sagði Kristrún.
Hún sagði að þetta væri í takt við það sem varaformaður Framsóknarflokksins hafði áður sagt og að þá hafi verið talað um hvalrekaskatt, nálgun sem allur þingflokkur Framsóknar styðji.
„Heimilin finna fyrir rýrnandi kaupmætti og hækkandi greiðslubyrgði á sama tíma og hvalreki safnast upp hjá fjármagnseigendum og í stórútgerð vegna eignaverðshækkana og afurðarhækkana,“ sagði Kristrún.
„Við höfum séð fjárlög þessarar ríkisstjórnar og þar er hvergi að finna hvalrekaskatt á fjármagn eða stórútgerð, nei aðeins viðbótargjöld á venjuleg heimili í landinu.“
Sigurður Ingi sagði stöðu heimilanna vera betri en óttast hafi verið.
Framsóknarflokkurinn standi á bak við þá stefnu að þegar á þurfi að halda vilji flokkurinn fara þá leið sem hann hefur kynnt. Hann hafi ekki verið að tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar heldur sagt skoðun sína sem formaður Framsóknar.
Kristrún svaraði Sigurði Inga og gagnrýndi málflutning Framsóknarflokksins.
„Hér er farið ítrekað í viðtöl og haldið uppi málflutningi um að þetta sé pólitík Framsóknarflokksins og svo birtist hún hvergi í fjárlögum ríkisstjórnar,“ sagði Kristrún.
Sigurður Ingi sagði þá að mikilvægt væri að styðja þá sem minnst hafa.
„Það skiptir líka máli að við förum ekki að ganga hér um með einhverjar sveðjur heldur hjálpum til og styðjum við Seðlabankann,“ sagði Sigurður Ingi.
Hann spyr hvort aðgerðir ríkisins og Seðlabankans séu hugsanlega að hafa áhrif.
„Getur verið að við séum á réttri leið án þess að við séum í einhverjum stórkostlegum sveiflum, heldur að reyna að finna réttu stilliskrúfurnar?“ spurði Sigurður Ingi.