Sendi öllum starfsmönnum Alþingis tölvupóst

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis.
Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég sendi tölvupóst áðan fyrir hönd forseta til allra þingmanna, ráðherra og starfsfólks Alþingis og sagði að við værum á vaktinni. Ég minnti á það sem fram kom hjá lögreglu, að ekki væri talin yfirvofandi hætta í samfélaginu um beitingu vopna gegn fólki og stofnunum.“

Þetta segir Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, í samtali við mbl.is.

Greint var frá því í dag að fjórir menn hefðu verið handteknir af sérsveit lögreglu vegna gruns um að und­ir­búa hryðju­verk hér á landi.

Ætla má að árás­ar­menn­irn­ir hafi beint sjón­um sín­um að Alþingi eða lög­reglu, að sögn Karls Stein­ars Vals­son­ar, yf­ir­lög­regluþjóns hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra.

Alþingi ekki látið vita af aðgerðunum í gær

Ragna segir í svari við fyrirspurn mbl.is að fram hafi komið í tölvupóstinum sem sendur var í dag að Alþingi hafi ekki verið látið vita af lögregluaðgerðunum í gær, slíkt væri háð öryggismati og mati á rannsóknarhagsmunum hverju sinni.

„Þá var minnt á að öryggismál væru í góðu horfi en væru að sjálfsögðu alltaf til endurskoðunar og að þetta mál gæfi fullt tilefni til að fara ofan í saumana á öryggismálum, löggæslu og endurskoðun á hættumati á Alþingi og verður það gert,“ bætir Ragna við.

Hún segir að nokkrir starfsmenn Alþingis hafi tjáð henni að gott væri að fá þessar upplýsingar í tölvupósti.

„Auðvitað kom þetta flatt upp á fólk á þingi eins og þetta kom flatt upp á fólkið í samfélaginu. Það þótti við hæfi að við sendum póst þar sem farið var yfir stöðuna,“ segir Ragna að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert