Þingmönnum að einhverju leyti brugðið

Birgir ásamt formönnum stjórnarflokkanna þriggja við þingsetningu fyrr í mánuðinum.
Birgir ásamt formönnum stjórnarflokkanna þriggja við þingsetningu fyrr í mánuðinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hugsa að þingmönnum sé auðvitað að einhverju leyti brugðið við þessar fréttir,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, um blaðamannafund lögreglunnar fyrr í dag, þar sem meðal annars var greint frá því að ætla mætti að Alþingi eða lögreglan hefðu verið skotmörk í undirbúningi hryðjuverka.

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki upplýst í gær

„Við vorum ekki upplýst um þessa atburði í gær, þannig að við höfum engar upplýsingar um það hvort einhver hluti málsins snýr sérstaklega að okkur,“ segir Birgir.

Hann tekur fram að skrifstofa þingsins og embætti ríkislögreglustjóra eigi auðvitað í ágætum samskiptum um hvernig öryggismálum þingsins sé almennt fyrirkomið.

Og ef í þessu máli eru einhver þannig atvik að það kalli á endurskoðun [öryggismála þingsins], þá þurfum við auðvitað að fara í gegnum það, en á þessu stigi erum við bara að afla okkur upplýsinga frá lögreglunni um það sem að okkur snýr í þessum efnum, og mat lögreglunnar á því hvernig öryggi þingsins verði sem best gætt,“ segir Birgir.

Öryggismál í sífelldu endurmati

Birgir segir að á þessu stigi hafi þingið ekki frekari upplýsingar um mögulega ógn gegn Alþingi umfram það sem komið hafi fram opinberlega, en að verið sé að kanna hvernig þau mál liggi.  

„Það þarf auðvitað að meta það á þessu stigi það sem kemur fram hjá lögreglunni. Það er ríkislögreglustjóra að sjá um öryggi æðstu stofnana ríkisins, og er Alþingi þar með talið,“ segir Birgir. Hann segir að það þurfi auðvitað alltaf að endurskoða öryggismálin með reglulegu millibili, og að ef sérstök mál komi upp geti það kallað á slíka endurskoðun.

„Og það er auðvitað eðlilegt að það gerist í framhaldi af þessu, en það hins vegar er þannig að öryggisstig, bæði hér í þinginu og annars staðar hefur verið aukið eða minnkað eftir atvikum, þannig að það má segja að það þarf að vera stöðugt endurmat að þessu leyti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert