Anton Guðjónsson
„Ég vonast til þess að geta sem fyrst farið að senda boð til fjölmiðla um blaðamannafund en ég er ekki kominn með tímasetningu. Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir hádegi,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.
Tilefni blaðamannafundarins eru aðgerðir ríkislögreglustjóra í gær en sérsveitin var með umfangsmiklar aðgerðir í Holtasmára í Kópavogi og á iðnaðarsvæði í Mosfellsbæ.
Gunnar gat ekki gefið upp neinar frekari upplýsingar fyrr en fundurinn verður. Í gær var greint frá aðgerðum sérsveitarinnar á tveimur stöðum á höfuðbogarsvæðinu og í kjölfarið tilkynnti ríkislögreglustjóri að sérsveitin og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi handtekið fjóra einstaklinga. Segir lögreglan að þar með hafi hættuástandi verið afstýrt. Tveir þeirra sem voru handteknir voru taldir vopnaðir og hættulegir umhverfi sínu.
Í tilkynningunni kemur fram að rannsóknin hafi snúið að skipulagðri glæpastarfsemi og viðamiklum vopnalagabrotum.
Gunnar segir að fólk sé eðlilega skelkað við að lesa fréttir sem þessar um aðgerðir lögreglu.
„Þess vegna þurfum við að tefla okkar fólki fram og útskýra stöðuna og við gerum það eins fljótt og við getum.“