Upplýsa nánar um aðgerðirnar eftir hádegi í dag

Sérsveit ríkislögreglustjóra. Mynd úr safni.
Sérsveit ríkislögreglustjóra. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég vonast til þess að geta sem fyrst farið að senda boð til fjölmiðla um blaðamannafund en ég er ekki kominn með tímasetningu. Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi eftir hádegi,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Tilefni blaðamannafundarins eru aðgerðir ríkislögreglustjóra í gær en sérsveitin var með umfangsmiklar aðgerðir í Holtasmára í Kópavogi og á iðnaðarsvæði í Mosfellsbæ.

Gunnar gat ekki gefið upp neinar frekari upplýsingar fyrr en fundurinn verður. Í gær var greint frá aðgerðum sérsveitarinnar á tveimur stöðum á höfuðbogarsvæðinu og í kjölfarið tilkynnti ríkislögreglustjóri að sér­sveitin og lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hafi hand­tekið fjóra ein­stak­linga. Seg­ir lög­regl­an að þar með hafi hættu­ástandi verið af­stýrt. Tveir þeirra sem voru hand­tekn­ir voru tald­ir vopnaðir og hættu­leg­ir um­hverfi sínu.

Í tilkynningunni kem­ur fram að rann­sókn­in hafi snúið að skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og viðamikl­um vopna­laga­brot­um.

Fólk eðlilega skelkað

Gunnar segir að fólk sé eðlilega skelkað við að lesa fréttir sem þessar um aðgerðir lögreglu.

„Þess vegna þurfum við að tefla okkar fólki fram og útskýra stöðuna og við gerum það eins fljótt og við getum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert