Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, og jafnframt formaður þjóðaröryggisráðs, segir í samtali við mbl.is að fulltrúar þjóðaröryggisráðs hafi verið upplýstir um aðgerðir sérsveitar ríkislögreglustjóra vegna hryðjuverkaógnar í gær.
Spurð hvort að fulltrúar hafi verið upplýstir fyrir eða eftir aðgerðir lögreglu segir Katrín það hafa verið gert um það leyti sem aðgerðir fóru af stað.
„Eins og sjá má á þessari aðgerð í gær stóð lögreglan sig mjög vel í að ná utan um hættulega stöðu. Ég held að þetta sé staða sem erfitt er að eiga við – hér er til dæmis um þrívíddarprentuð vopn að ræða – það er ekki auðvelt að eiga við það þegar verið er að nota lögmæt tæki til að gera algjörlega stórhættulega hluti,“ segir Katrín og ítrekar skoðun sína á því hve vel lögreglan hafi staðið sig.
„Í framhaldinu munu stjórnvöld fara yfir stöðu með lögreglunni. Þegar hefur verið ráðist í ákveðnar aðgerðir til að efla lögregluna eins og að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Við munum áfram þurfa að vera á tánum hvað varðar það að lögreglan sé í stakk búin til að mæta nýjum hættum.“
Katrín segir að þjóðaröryggisráð muni fara yfir málið í framhaldinu „en ekki í neinu hasti núna“.
„Lögreglan er með þetta undir stjórn, en að sjálfsögðu fara svo yfir þessa atburði þegar aðeins er um liðið.“