Bólusetja 60 ára og eldri með fjórða skammtinum

Frá bólusetningu við Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu við Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íbúum höfuðborgarsvæðisins, 60 ára og eldri, verður boðið upp á fjórða skammtinn af bóluefni við Covid-19 í Laugardalshöll frá og með 27. september, að því er segir í tilkynningu á vef Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kemur fram að bólusett verði milli klukkan 11 og 15 alla virka daga frá þriðjudeginum 27. september til 7. október og eru allir sem geta hvattir til að mæta en fjórir mánuðir verða að hafa liðið frá því að einstaklingur fékk þriðja skammtinn.

Notast verður við nýja útgáfu af bóluefni við Covid-19 og því ekki boðið upp á grunnbólusetningu fyrir þá sem ekki hafa verið bólusettir.

Stefnt er að því að bjóða þeim sem eru yngri en 60 ára og vilja örvunarskammt upp á bólusetningu þegar bólusetningu 60 ára og eldri verður lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert