„Þú þarft ekki að vera einhver snillingur til að geta gert þetta. Þú þarft samt sem áður að tileinka þér þetta, öðlast þekkingu og afla þér upplýsinga og hafa einbeittan brotavilja.“
„Mér finnst ekki hægt að líkja því við að setja upp iPhone þar sem þú ýtir bara ítrekað á „next“. Þessi tækni er ekki orðin svo notendavæn.“
Þetta segir Þórdís Björg Björgvinsdóttir, einn af eigendum fyrirtækisins 3D verk sem flytur inn þrívíddarprentara, í samtali við mbl.is um þrívíddarprentun á byssum.
Mennirnir fjórir sem handteknir voru á dögunum vegna gruns um áætlaða hryðjuverka árás á Íslandi eru meðal annars grunaðir um að hafa framleitt íhluti í vopn með þrívíddarprentara.
Þórdís segir að hver sem er geti þrívíddarprentað íhluti í byssu en viðkomandi þarf þá að vera búinn að kynna sér málið vel og prufa sig töluvert áfram.
Dr. Paolo Gargiulo, prófessor í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík sem hefur m.a. þróað þrívíddunarprenttækni fyrir Landspítalann til notkunar í klínískum aðgerðum, sagði í samtali við mbl.is. í gær að „mjög auðvelt“ væri að þrívíddarprenta byssu og líkti því við að setja upp iPhone.
Paolo Gargiulo minntist sömuleiðis á í viðtalinu í gær að skotfæri sem prentuð eru með FDM-tækni séu líklega ekki nógu kraftmikil til að geta orðið manni að bana.
Þórdís samsinnir því og segir að ekki sé hægt að prenta 100% nothæfa byssu. Þá þurfi að útvega gorma og hlaup í byssu sem er nothæf og endist vel.
„Ásetningur mannanna eins hefur komið fram í fjölmiðlum um að þeir hafi verið að plana árás á árshátíð lögreglumanna... ef þeir ætluðu að valda miklum skaða væru þeir ekki að fara að gera það með vopni sem er 100% þrívíddarprentað,“ segir Þórdís
Hún leggur aðallega áherslu á að ekki sé auðvelt að prenta 100% þrívíddar prentaða byssu, þó hægt sé að prenta íhluti, en þá þurfi samt sem áður að flytja inn skotfæri.
„Ef þrívíddartæknin væri ekki til þá hefðu þeir samt geta gert þetta með öðrum hætti. Þrívíddarprentun er ekki vondur kall. Það er mjög langsótt að geta þrívíddarprentað 100% skotvopn sem virkar vel, og ekki eitthvað sem óreyndur maður í næsta húsi gæti gert.“