Anton Guðjónsson
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að lögreglan á Íslandi hafi rekið sig á að geta ekki haft eftirlit með einstaklingum sem lögregluyfirvöld erlendis hafi hvatt til að fylgst verði með.
Jón sagði við RÚV í gær að frumvarp um afbrotavarnir eða forvirkar rannsóknarheimildir væri tilbúið í dómsmálaráðuneytinu.
„Við erum að glíma hér við mjög vaxandi ógn í skipulagðri glæpastarfsemi óháð þessari uppákomu núna,“ sagði Jón í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi.
„Það er hægt að rekja einhver dæmi um það að okkur hafi borist upplýsingar um einstaklinga sem eru undir eftirliti í lögregluembættum í nágrannalöndum okkar og á Norðurlöndum og við höfum fengið hvatningu til að fylgjast með og veita til baka upplýsingar, og við erum hreinlega ekki með heimildir til að gera það,“ bætti hann við.