Tveir mannanna, sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í fyrradag, ræddu um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglumanna.
Þetta herma heimildir fréttastofu RÚV.
Áður hafði Morgunblaðið greint frá, samkvæmt heimildum, að mennirnir sem voru handteknir hafi sýnt árshátíðinni, sem á að halda í næstu viku, sérstakan áhuga.
Mennirnir tveir sæta nú gæsluvarðahaldi en fjórir voru handteknir af sérsveitinni.
Þá hafi fundist bæði síma- og tölvugögn þar sem þeir hafi notað orðalagið „fjöldamorð“ og meðal annars nefnt í því samhengi lögregluna og Alþingi.
Fréttastofa RÚV hefur einnig upplýsingar um að annar mannanna sem sætir nú gæsluvarðhaldi hafi verið látinn laus, eftir viku gæsluvarðhald, degi áður en hann var handtekinn að nýju. Ástæða gæsluvarðhaldsins mun hafa verið grunur um brot á vopnalögum fyrr á árinu.