Sömu viðurlög gætu átt við um ölvunarakstur á smáfarartækjum og bílum.
Þetta segir í drögum að frumvarpi um breytingar á umferðarlögum sem birtar hafa verið á samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar.
Í drögunum eru ýmis ákvæði sem hafa það að markmiði að auka öryggi þeirra sem aka á smáfarartækjum í umferðinni sem og að nýta kosti þeirra.
Þar er meðal annars leitast eftir því að setja hlutlægt viðmið um ölvun ökumanns smáfarartækis sem fela í sér sömu mörk og eiga við akstur vélknúinna ökutækja og jafnframt viðurlög við slíkum brotum.
Einnig er miðað við að smáfarartæki séu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km/klst. Breytingarnar byggja á skýrslu sem starfshópur skilaði um smáfarartæki í júní.
Í frumvarpsdrögunum segir að börnum yngri en 13 ára verði bannað að aka smáfarartækjum og kveðið er á um hjálmaskyldu barna yngri en 16 ára við akstur slíkra farartækja.
Mælt er fyrir um að heimilt sé að aka smáfarartæki á vegi þar sem leyfilegur hámarkshraði er ekki meiri en 30 km/klst. Veghaldara sé þó heimilt að leggja bann við umferð þeirra á einstökum vegum eða vegaköflum.
Þá sé rafmagnshjólum, smáfarartækjum eða léttum bifhjólum í flokki I óheimilt að fara yfir 25 km/klst. Sama eigi við um bifhjól í flokki II að undanskildu því að hámarkshraði þeirra megi vera 45 km/klst.
Sysum vegna smáfarartækja hefur fjölgað mikið á síðustu árum. 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðastliðnu ári voru á rafhlaupahjólum, en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð.
42% alvarlega slasaðra í umferðinni á síðasta ári voru á meðal gangandi, hjólandi eða þeim sem voru á rafhlaupahjóli og stór hluti fyrrgreindra slysa varð seint á föstudögum eða laugardögum.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði frá áformunum að ofan á Umferðarþingi 2022 í morgun. Eitt meginviðfangsefni þingsins var öryggi óvarinna vegfarenda í umferðinni.
„Með því að ferðast stuttar vegalengdir gangandi, hjólandi eða með strætó drögum við úr losun gróðurhúsaloftegunda, stuðlum að betri loftgæðum í þéttbýli og vinnum að bættri lýðheilsu. Það stafa þó ýmsar hættur að óvörðum vegfarendum. Því er nauðsynlegt að gera breytingar á regluverki umferðar til að auka öryggi þeirra sem nýta þennan fararmáta, m.a. á smáfarartækjum,“ sagði hann, að því er kemur fram í tilkynningu.