Vinningshafi í Lottó sem vann 77,4 milljónir 10. september síðastliðinn var með rangt netfang og símanúmer skráð í Lottó-appið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá.
Þar segir að vinningshafinn hafi keypt lukkutölurnar í Lottó-appinu og hafi einn verið með þær allar réttar. Hins vegar hafði viðkomandi láðst að uppfæra upplýsingar um nýtt símanúmer og netfang í appinu.
Því var ekki hægt að hafa samband við vinningshafann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Þá voru skilaboð send á helstu viðskiptabanka til að kanna hvort vinningshafinn væri í hópi viðskiptavina þeirra.
Endaði þetta með því að starfsfólk eins bankanna gat haft upp á týnda vinningshafanum og beðið hann um að setja sig í samband við Íslenska getspá.
Vinningshafinn reyndist karlmaður á fimmtugsaldri í hugleiðingum um að kaupa sér íbúð. Hann sagði Íslenskri getspá að vinningurinn myndi koma sér einstaklega vel.