Gul veðurviðvörun er í gildi fyrir fyrir höfuðborgarsvæðið, Vesturland, Vestfirði, Norðurland, Miðhálendið og Austurland að Glettingi, frá klukkan 18 í dag og fram eftir nóttu. Í fyrramálið er svo gul veðurviðvörun í gildi fyrir Norðausturland, Austurland og Suðurland og gildir hún fram eftir degi.
Í fyrstu má búast við suðvestan hvassviðri eða stormi og rigningu. Gera má ráð fyrir 15-23 m/s og að vindhviður fari víða yfir 30 m/s. Á morgun má svo gera ráð fyrir norðvestan stormi eða roki og snjókomu eða slyddu.
Búist er mikilli veðurhæð á austurhelmingi landsins, um 20-28 m/s og að vindhviður fari yfir 40 m/s á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Ekkert ferðaveður verður á þessum svæðum.
Þá er fólk hvatt til að tryggja að lausamuni, eins og garðhúsgögnum og trampólínum.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands, segir að mikilvægt sé að láta ekki veðrið koma sér á óvart.
„Veður í september hefur fram að þessu hefur verið rólegt og því verður veðrið um helgina mikil viðbrigði og mikilvægt að láta það ekki koma sér á óvart. Íbúar á landinu eru hvattir til huga að sínu nærumhverfi og gera ráðstafanir. Til dæmis þarf að koma sumarhúsgögnum í skjól sem og öðrum hlutum sem geta fokið,“ segir í hugleiðingunum.
„Það má því búast við miklum sviptingum í veðrinu um helgina, útlit er fyrir óveður í tveimur þáttum. Í dag eru það hlýindi og suðvestan hvassviðri eða stormur. Á morgun enn sterkari norðvestanátt og kólnar, þó ber að árétta að vestanvert landið virðist ætla að sleppa við óveður á morgun,“ segir þar jafnframt.
Á mánudag:
Breytileg átt 3-8 m/s á vesturhelmingi landsins, en norðvestan 13-20 austanlands fram eftir degi. Víða þurrt og bjart veður og hiti 2 til 8 stig, mildast vestast.
Á þriðjudag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-10. Skýjað og lítilsháttar væta um landið vestanvert og norðaustantil, annars þurrt að kalla. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast suðaustanlands.
Á miðvikudag:
Hæg suðaustlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar væta sunnan- og austanlands, en þurrt annars staðar. Hiti 5 til 10 stig að deginum.
Á fimmtudag:
Suðaustanátt og rigning suðaustanlands, annars hægari og úrkomulítið. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Ákveðin austanátt og þurrt að kalla, en dálítil væta suðaustan- og austanlands. Áfram fremur milt.