Húsnæði í Ármúla sem notað er undir kennslu nemenda Hagaskóla fór ekki í samþykktarferli hjá byggingafulltrúa og var þess vegna ekki yfirfarið af slökkviliðinu áður en kennsla hófst þar.
Vegna þess hefur húsráðendum nú verið gefinn frestur til 12. október til þess að bæta úr þeim vanköntum sem þegar eru til staðar á brunavörnum. RÚV greindi fyrst frá í fréttaskýringaþættinum Kveik á fimmtudag.
Birgir Finnsson, starfandi slökkviliðsstjóri, segir að þetta frávik frá almennt viðurkenndu verklagi sé upphaf þess vanda sem standi húsráðendum fyrir höndum, en slökkviliðið hefur hótað því að loka húsæðinu ef nauðsynlegar úrbætur verði ekki gerðar.
Úttekt slökkviliðsins fór fram í kjölfar ábendingar en ef breytingin á notkun hefði farið í samþykktarferli hjá byggingafulltrúa hefði slökkviliðið farið í reglubundið eftirlit áður en kennsla hófst í húsnæðinu en ekki eftirá eins og raunin var.
Húsnæðið er að sögn Birgis upphaflega hannað sem skrifstofuhúsnæði sem síðan er breytt í skólahúsnæði sem geri það að verkum að það sé fært upp um flokk í byggingareglugerð.
Birgir segist þó hafa fulla trú á því að hinar tilgreindu úrbætur verði gerðar innan tímafrestsins, enda sé stór hluti þeirra auðframkvæmanlegur og einhver þeirra skilyrða sem sett voru fram tengist áætlanagerð.
Birgir segir húsnæðið langt frá því að vera ónýtt þó sumt megi betur fara. Hann segir suma hluta uppfærsluna hafa verið vel heppnaða og standist fullkomlega allar öryggiskröfur, þó nokkrir vankantar séu á.