„Ég læt vaða því maður lifir bara einu sinni“

Guðný segir þau ekki renna blint í sjóinn þó einhver …
Guðný segir þau ekki renna blint í sjóinn þó einhver óvissa sé alltaf til staðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjón­in Guðný Matth­ías­dótt­ir og Ró­bert Hal­bergs­son eru nán­ast búin að selja all­ar ver­ald­leg­ar eig­ur sín­ar hér á landi og hafa fjár­fest í hús­bíl sem þau ætla að ferðast á til Spán­ar þar sem þau hyggj­ast setj­ast að. Með í för verða tvö börn þeirra, Ísa­bella Lind, 16 ára og Kristó­fer Val­ur, 10 ára, sem eru mjög spennt fyr­ir æv­in­týr­inu. Þau gera ráð fyr­ir að allt verði klappað og klárt um miðjan októ­ber og að þá geti þau lagt í hann.

„Það er lítið eft­ir af bú­slóðinni. Við höf­um verið með í bás í Barnal­opp­unni og Verzl­ana­höll­inni, selt á Face­book og gefið. Akkúrat núna er eld­hús­borðið okk­ar tvö úti­legu­borð og stofu­borðið er búið til úr pappa­köss­um og hill­um sem við ætl­um að taka með okk­ur,” seg­ir Guðný kím­in. Þeim hef­ur semsagt gengið vel að losna við bú­slóðina.

Fyrsta stopp verður í Dan­mörku þar sem þau bjuggu um ára­bil. Þar eru þau með bú­slóð í geymslu sem stend­ur til að fara í gegn­um, henda, gefa og selja eitt­hvað og flytja svo rest­ina til Spán­ar þegar þau eru kom­in með fasta bú­setu þar. Tvær dæt­ur hjón­anna búa Dan­mörku og ætla þau líka að eiga gæðastund­ir með þeim áður en ferðalagið hefst.

Þarf í heit­ara lofts­lag að lækn­is­ráði

Hug­mynd­in að flutn­ing­um kom reynd­ar ekki bara til af góðu því Guðný á sam­kvæmt lækn­is­ráði helst að dvelja í meiri hita vegna þrálátra eftir­kasta af Covid-19.

„Sýk­ing­in fór í liðina og þegar það er kalt úti þá er ég ekki mjög hreyf­an­leg. Ég er á ör­orku því ég er ekki vinnu­fær,” seg­ir Guðný sem sér þó já­kvæðar hliðar á stöðunni. „Það er hrika­legt að neyðast til að flytja til Spán­ar,“ seg­ir hún hlæj­andi. „Maður ger­ir bara það besta úr stöðunni og ger­ir það sem þarf til að manni líði bet­ur,“ bæt­ir hún við.

Ró­bert hef­ur rekið fyr­ir­tækið PúHa design síðastliðin fimm ár og stefn­ir á að halda rekstr­in­um áfram. 

Fyr­ir­tækið var stofnað fyr­ir fimm árum, þegar Guðný glímdi við krabba­mein, en það var hún sem byrjaði að dunda sér við að búa til ým­is­kon­ar gjafa­vöru til að hafa eitt­hvað fyr­ir stafni. „Ég fékk vél til að leika mér með þegar ég var í veik­inda­leyfi, en ég fékk eig­in­lega ekk­ert að leika með hana. Ró­bert var strax bara: heyrðu þetta er skemmti­legt,” seg­ir Guðný hlæj­andi. Svo vatt það upp á sig og úr varð fyr­ir­tæki sem hef­ur vaxið og dafnað.

„Við erum með net­versl­un sem verður áfram. Hún hef­ur verið rek­in er­lend­is frá því við byrjuðum með þetta í Dan­mörku og versl­un­in sjálf er skráð úti.“

Guðný seg­ir að ef það komi upp ein­hver vanda­mál þá aðlagi þau sig ein­fald­lega að breytt­um aðstæðum. Það er alltaf nóg að gera hjá þeim.

Þau leituðu lengi af rétta húsbílnum.
Þau leituðu lengi af rétta hús­bíln­um. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Komu heim vegna Covid

Þau bjuggu í Dan­mörku frá ár­inu 2018 og þangað til í fe­brú­ar árið 2021. Fyrst í Ála­borg og svo í Kaup­manna­höfn eft­ir að Ró­bert fékk vinnu þar sem hann missti svo í Covid-far­aldr­in­um.

„Þetta var búið að vera mjög erfitt út af Covid. Krakk­arn­ir höfðu ekki verið í skóla í heilt ár og þetta var fer­lega erfitt, mikl­ar sam­komutak­mark­an­ir og svona. Þegar Ró­bert fékk til­boð um vinnu heima á Íslandi ákváðum við að slá til ætluðum að vera í hálft ár.“

Þau ílengd­ust hins veg­ar og ákváðu að best væri að Ísa­bella myndi klára tí­unda bekk­inn á Íslandi, sem hún gerði í vor. Í sum­ar fannst þeim því kom­inn tími til að halda út aft­ur og lögðust yfir hvað þau langaði að gera. Niðurstaðan varð sú að þau vildu kom­ast í heit­ara lofts­lag. 

Renna ekki al­veg blint í sjó­inn

Prentvél­ar og fleira sem þau nota vegna fyr­ir­tæk­is Ró­berts ætla þau að flytja með sér út, en af því þau eru ekki að flytja lög­heim­ili sitt aft­ur til Dan­merk­ur þá lenda þau í vand­ræðum með inn­flutn­ing á vél­un­um þangað.

Fyrst kom upp sú hug­mynd að kaupa ein­fald­lega fjög­urra sæta flutn­inga­bíl en fljót­lega varð hug­mynd­in um hús­bíl yf­ir­sterk­ari. Þeim fannst það væn­legri kost­ur, enda eru þau þá með ör­uggt húsa­skjól, bæði á ferðalag­inu og á áfangastað, þar til þau finna sér hús­næði þar.

„Við tók­um ákvörðun um að fara bara á hús­bíl og keyra niður eft­ir í ró­leg­heit­un­um. Þá erum við með gist­ingu á leiðinni og get­um farið inn á tjald­stæði og annað. Við höf­um ferðast um Evr­ópu og ég hef búið lengi úti þannig við erum ekki al­veg að renna blint í sjó­inn.” Það tók hins veg­ar dágóðan tíma að finna rétta far­ar­tækið því það þurfti að upp­fylla ákveðin skil­yrði um ör­yggi, ástand og verð.

Þau hafa í raun eng­in tengsl við Spán og landið varð ein­fald­lega fyr­ir val­inu vegna heit­ara lofts­lags. Nú er hins veg­ar vina­fólk þeirra flutt út til Malaga og þeim líst vel á þá staðsetn­ingu. „Þau eru alltaf að sýna okk­ur frá staðnum sem þau búa á og það hljóm­ar alltaf bet­ur og bet­ur og við erum að spá í það. Ekki að við ætl­um að elta þau en það er skemmti­legra að hafa ein­hvern í ná­grenn­inu sem maður þekk­ir. Svo vit­um við ekk­ert hvernig þetta verður þegar við kom­um á staðinn, en þetta er planið eins og er.“

„Við erum ekki kom­in með neitt hús­næði úti og ætl­um að láta það ráðast þegar við kom­um. Við erum ekk­ert að stressa okk­ur neitt af því við höf­um alltaf bíl­inn. Það er auðvitað ekki ákjós­an­legt að búa í fleiri ár í hús­bíln­um með börn­in en við erum ýmsu vön og erum mjög sam­rýnd.“

Fjölskyldan stefnir á að leggja í hann um miðjan október.
Fjöl­skyld­an stefn­ir á að leggja í hann um miðjan októ­ber. mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Fer í skóla í skýj­un­um

Börn­in taka vel í fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar á lífs­hátt­um, að sögn Guðnýj­ar.

„Við vor­um ein­mitt að ræða þetta í gær­kvöldi. Bara jæja, nú erum við búin að kaupa bíl­inn og það er ekki aft­ur snúið með það. Hvað finnst ykk­ur? Hvernig er til­finn­ing­in? Og þau voru bara helpeppuð.“

Ísa­bella er í fjar­námi frá Fram­halds­skól­an­um á Húsa­vík og get­ur haldið því áfram með óbreyttu sniði þegar þau fara út. Guðný seg­ir þau þó eft­ir að út­vega netteng­ingu í bíl­inn og eru að reyna að finna út hvernig best er út­færa það.

„Það verður að vera, líka bara svo það sé hægt að vinna úr bíln­um. Svo verða krakk­arn­ir að vera í net­sam­bandi.“

Kristó­fer, sem nú er fimmta bekk í Há­teigs­skóla, mun fara í Ásgarðsskóla – skóla í skýj­un­um, þegar þau fara út. Um er að ræða grunn­skóla sem rek­inn er al­farið á net­inu en skóla­náms­skrá skól­ans bygg­ir á aðal­náms­skrá grunn­skóla sem notuð er í 90 lönd­um.

„Þau í skól­an­um hans eru al­veg dá­sam­leg, en þau komu með þessa hug­mynd. Við lát­um bara vita þegar við för­um út og þá fær­ist hann þangað yfir. Þetta er úrræði sem er alltof lítið talað um því það er fullt af krökk­um sem geta af ein­hverj­um ástæðum ekki sótt skóla. Það geta verið fé­lags­leg­ar ástæður eða land­fræðileg­ar. Það er meira að segja fé­lags­miðstöð á net­inu. Það er hitt­ing­ur eft­ir skóla og þau spila Dungeons and Dragons og fleira. Ef við erum á land­inu þá má hann mæta í Há­teigs­skóla og hann á sína vini hér sem hann held­ur sam­bandi við.“

Til að byrja með verða þau áfram með lög­heim­ili á Íslandi, enda verða þau í raun á ferðalagi þangað til þau kom­ast í hús­næði úti.

Finn­ur mik­inn mun í hit­an­um

Þrátt fyr­ir að planið sé að setj­ast að á Spáni, þá sér Guðný fyr­ir sér að þau verði alltaf með ann­an fót­inn á Íslandi.

„Okk­ur þykir voða vænt um Ísland og lang­ar til að vera eitt­hvað hérna líka, en veðrið er bara ekki upp á marga fiska. Ef heils­an seg­ir að maður þurfi meiri hita þá verður maður bara að gera það.“

Guðný finn­ur mik­inn mun á lík­am­legri getu þegar hún kemst í heit­ara lofts­lag. „Við fór­um til London að heim­sækja vin­konu mína um dag­inn, það var 30 stiga hiti þar og það var allt annað líf. Þetta hef­ur verið erfitt en okk­ur finnst líka erfitt að fara. Við eig­um fjöl­skyldu hérna en við eig­um líka stóru stelp­urn­ar okk­ar úti og það er auðveld­ara og ódýr­ara fyr­ir þær að koma í heim­sókn til okk­ar til Spán­ar held­ur en Íslands. Þannig við von­um að þetta verði bara mjög fínt.“

Ég læt vaða því maður lif­ir bara einu sinni

Eft­ir að ákvörðunin var tek­in hafa þau ekki fengið neina bakþanka. Ekki einu sinni þó ein­hverj­ir fjöl­skyldumeðlim­ir hér á landi hafi viðrað áhyggj­ur sín­ar af fyr­ir­ætl­un­um þeirra.

„Fyrst krakk­arn­ir eru orðin svona stór­ir og til í þetta þá fannst okk­ur eig­in­lega bara rugl að láta ekki vaða. Ef þetta geng­ur ekki upp þá er ekki annað að gera en að koma til Íslands aft­ur. Ég lít ekki á það sem ósig­ur, þá er maður reynsl­unni rík­ari,” seg­ir Guðný.

Þó veik­indi henn­ar eigi stór­an þátt í þeirri ákvörðun að halda á suðlæg­ari slóðir, þá spil­ar æv­in­týraþráin líka inn í.

„Ég er svaka­leg­ur flakk­ari í mér og hef alltaf verið. Eft­ir veik­ind­in þá er líka kæru­laus­ari og hugsa frek­ar, ef eitt­hvað geng­ur ekki, þá bara geng­ur það ekki. Ég þarf ekk­ert að vera með allt til­búið. Ég læt vaða því maður lif­ir bara einu sinni.“

Guðný seg­ir ákvörðun­ina tekna að vel ígrunduðu máli þó það sé ým­is­legt sem ekki sé hægt að skipu­leggja að fullu eða átta sig á fyrr en ferðalagið er hafið.

„Við erum alls ekki að vaða af stað í ein­hverju hugs­un­ar­leysi.“

Guðný ætl­ar að vera dug­leg að birta mynd­ir og mynd­bönd af æv­in­týr­inu á In­sta­gram-síðu sinni og fyr­ir­tæk­is­ins, en áhuga­sam­ir geta fylgst með á gudnym­att og puha_gjof.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert