„Ég læt vaða því maður lifir bara einu sinni“

Guðný segir þau ekki renna blint í sjóinn þó einhver …
Guðný segir þau ekki renna blint í sjóinn þó einhver óvissa sé alltaf til staðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjónin Guðný Matthíasdóttir og Róbert Halbergsson eru nánast búin að selja allar veraldlegar eigur sínar hér á landi og hafa fjárfest í húsbíl sem þau ætla að ferðast á til Spánar þar sem þau hyggjast setjast að. Með í för verða tvö börn þeirra, Ísabella Lind, 16 ára og Kristófer Valur, 10 ára, sem eru mjög spennt fyrir ævintýrinu. Þau gera ráð fyrir að allt verði klappað og klárt um miðjan október og að þá geti þau lagt í hann.

„Það er lítið eftir af búslóðinni. Við höfum verið með í bás í Barnaloppunni og Verzlanahöllinni, selt á Facebook og gefið. Akkúrat núna er eldhúsborðið okkar tvö útileguborð og stofuborðið er búið til úr pappakössum og hillum sem við ætlum að taka með okkur,” segir Guðný kímin. Þeim hefur semsagt gengið vel að losna við búslóðina.

Fyrsta stopp verður í Danmörku þar sem þau bjuggu um árabil. Þar eru þau með búslóð í geymslu sem stendur til að fara í gegnum, henda, gefa og selja eitthvað og flytja svo restina til Spánar þegar þau eru komin með fasta búsetu þar. Tvær dætur hjónanna búa Danmörku og ætla þau líka að eiga gæðastundir með þeim áður en ferðalagið hefst.

Þarf í heitara loftslag að læknisráði

Hugmyndin að flutningum kom reyndar ekki bara til af góðu því Guðný á samkvæmt læknisráði helst að dvelja í meiri hita vegna þrálátra eftirkasta af Covid-19.

„Sýkingin fór í liðina og þegar það er kalt úti þá er ég ekki mjög hreyfanleg. Ég er á örorku því ég er ekki vinnufær,” segir Guðný sem sér þó jákvæðar hliðar á stöðunni. „Það er hrikalegt að neyðast til að flytja til Spánar,“ segir hún hlæjandi. „Maður gerir bara það besta úr stöðunni og gerir það sem þarf til að manni líði betur,“ bætir hún við.

Róbert hefur rekið fyrirtækið PúHa design síðastliðin fimm ár og stefnir á að halda rekstrinum áfram. 

Fyrirtækið var stofnað fyrir fimm árum, þegar Guðný glímdi við krabbamein, en það var hún sem byrjaði að dunda sér við að búa til ýmiskonar gjafavöru til að hafa eitthvað fyrir stafni. „Ég fékk vél til að leika mér með þegar ég var í veikindaleyfi, en ég fékk eiginlega ekkert að leika með hana. Róbert var strax bara: heyrðu þetta er skemmtilegt,” segir Guðný hlæjandi. Svo vatt það upp á sig og úr varð fyrirtæki sem hefur vaxið og dafnað.

„Við erum með netverslun sem verður áfram. Hún hefur verið rekin erlendis frá því við byrjuðum með þetta í Danmörku og verslunin sjálf er skráð úti.“

Guðný segir að ef það komi upp einhver vandamál þá aðlagi þau sig einfaldlega að breyttum aðstæðum. Það er alltaf nóg að gera hjá þeim.

Þau leituðu lengi af rétta húsbílnum.
Þau leituðu lengi af rétta húsbílnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Komu heim vegna Covid

Þau bjuggu í Danmörku frá árinu 2018 og þangað til í febrúar árið 2021. Fyrst í Álaborg og svo í Kaupmannahöfn eftir að Róbert fékk vinnu þar sem hann missti svo í Covid-faraldrinum.

„Þetta var búið að vera mjög erfitt út af Covid. Krakkarnir höfðu ekki verið í skóla í heilt ár og þetta var ferlega erfitt, miklar samkomutakmarkanir og svona. Þegar Róbert fékk tilboð um vinnu heima á Íslandi ákváðum við að slá til ætluðum að vera í hálft ár.“

Þau ílengdust hins vegar og ákváðu að best væri að Ísabella myndi klára tíunda bekkinn á Íslandi, sem hún gerði í vor. Í sumar fannst þeim því kominn tími til að halda út aftur og lögðust yfir hvað þau langaði að gera. Niðurstaðan varð sú að þau vildu komast í heitara loftslag. 

Renna ekki alveg blint í sjóinn

Prentvélar og fleira sem þau nota vegna fyrirtækis Róberts ætla þau að flytja með sér út, en af því þau eru ekki að flytja lögheimili sitt aftur til Danmerkur þá lenda þau í vandræðum með innflutning á vélunum þangað.

Fyrst kom upp sú hugmynd að kaupa einfaldlega fjögurra sæta flutningabíl en fljótlega varð hugmyndin um húsbíl yfirsterkari. Þeim fannst það vænlegri kostur, enda eru þau þá með öruggt húsaskjól, bæði á ferðalaginu og á áfangastað, þar til þau finna sér húsnæði þar.

„Við tókum ákvörðun um að fara bara á húsbíl og keyra niður eftir í rólegheitunum. Þá erum við með gistingu á leiðinni og getum farið inn á tjaldstæði og annað. Við höfum ferðast um Evrópu og ég hef búið lengi úti þannig við erum ekki alveg að renna blint í sjóinn.” Það tók hins vegar dágóðan tíma að finna rétta farartækið því það þurfti að uppfylla ákveðin skilyrði um öryggi, ástand og verð.

Þau hafa í raun engin tengsl við Spán og landið varð einfaldlega fyrir valinu vegna heitara loftslags. Nú er hins vegar vinafólk þeirra flutt út til Malaga og þeim líst vel á þá staðsetningu. „Þau eru alltaf að sýna okkur frá staðnum sem þau búa á og það hljómar alltaf betur og betur og við erum að spá í það. Ekki að við ætlum að elta þau en það er skemmtilegra að hafa einhvern í nágrenninu sem maður þekkir. Svo vitum við ekkert hvernig þetta verður þegar við komum á staðinn, en þetta er planið eins og er.“

„Við erum ekki komin með neitt húsnæði úti og ætlum að láta það ráðast þegar við komum. Við erum ekkert að stressa okkur neitt af því við höfum alltaf bílinn. Það er auðvitað ekki ákjósanlegt að búa í fleiri ár í húsbílnum með börnin en við erum ýmsu vön og erum mjög samrýnd.“

Fjölskyldan stefnir á að leggja í hann um miðjan október.
Fjölskyldan stefnir á að leggja í hann um miðjan október. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fer í skóla í skýjunum

Börnin taka vel í fyrirhugaðar breytingar á lífsháttum, að sögn Guðnýjar.

„Við vorum einmitt að ræða þetta í gærkvöldi. Bara jæja, nú erum við búin að kaupa bílinn og það er ekki aftur snúið með það. Hvað finnst ykkur? Hvernig er tilfinningin? Og þau voru bara helpeppuð.“

Ísabella er í fjarnámi frá Framhaldsskólanum á Húsavík og getur haldið því áfram með óbreyttu sniði þegar þau fara út. Guðný segir þau þó eftir að útvega nettengingu í bílinn og eru að reyna að finna út hvernig best er útfæra það.

„Það verður að vera, líka bara svo það sé hægt að vinna úr bílnum. Svo verða krakkarnir að vera í netsambandi.“

Kristófer, sem nú er fimmta bekk í Háteigsskóla, mun fara í Ásgarðsskóla – skóla í skýjunum, þegar þau fara út. Um er að ræða grunnskóla sem rekinn er alfarið á netinu en skólanámsskrá skólans byggir á aðalnámsskrá grunnskóla sem notuð er í 90 löndum.

„Þau í skólanum hans eru alveg dásamleg, en þau komu með þessa hugmynd. Við látum bara vita þegar við förum út og þá færist hann þangað yfir. Þetta er úrræði sem er alltof lítið talað um því það er fullt af krökkum sem geta af einhverjum ástæðum ekki sótt skóla. Það geta verið félagslegar ástæður eða landfræðilegar. Það er meira að segja félagsmiðstöð á netinu. Það er hittingur eftir skóla og þau spila Dungeons and Dragons og fleira. Ef við erum á landinu þá má hann mæta í Háteigsskóla og hann á sína vini hér sem hann heldur sambandi við.“

Til að byrja með verða þau áfram með lögheimili á Íslandi, enda verða þau í raun á ferðalagi þangað til þau komast í húsnæði úti.

Finnur mikinn mun í hitanum

Þrátt fyrir að planið sé að setjast að á Spáni, þá sér Guðný fyrir sér að þau verði alltaf með annan fótinn á Íslandi.

„Okkur þykir voða vænt um Ísland og langar til að vera eitthvað hérna líka, en veðrið er bara ekki upp á marga fiska. Ef heilsan segir að maður þurfi meiri hita þá verður maður bara að gera það.“

Guðný finnur mikinn mun á líkamlegri getu þegar hún kemst í heitara loftslag. „Við fórum til London að heimsækja vinkonu mína um daginn, það var 30 stiga hiti þar og það var allt annað líf. Þetta hefur verið erfitt en okkur finnst líka erfitt að fara. Við eigum fjölskyldu hérna en við eigum líka stóru stelpurnar okkar úti og það er auðveldara og ódýrara fyrir þær að koma í heimsókn til okkar til Spánar heldur en Íslands. Þannig við vonum að þetta verði bara mjög fínt.“

Ég læt vaða því maður lifir bara einu sinni

Eftir að ákvörðunin var tekin hafa þau ekki fengið neina bakþanka. Ekki einu sinni þó einhverjir fjölskyldumeðlimir hér á landi hafi viðrað áhyggjur sínar af fyrirætlunum þeirra.

„Fyrst krakkarnir eru orðin svona stórir og til í þetta þá fannst okkur eiginlega bara rugl að láta ekki vaða. Ef þetta gengur ekki upp þá er ekki annað að gera en að koma til Íslands aftur. Ég lít ekki á það sem ósigur, þá er maður reynslunni ríkari,” segir Guðný.

Þó veikindi hennar eigi stóran þátt í þeirri ákvörðun að halda á suðlægari slóðir, þá spilar ævintýraþráin líka inn í.

„Ég er svakalegur flakkari í mér og hef alltaf verið. Eftir veikindin þá er líka kærulausari og hugsa frekar, ef eitthvað gengur ekki, þá bara gengur það ekki. Ég þarf ekkert að vera með allt tilbúið. Ég læt vaða því maður lifir bara einu sinni.“

Guðný segir ákvörðunina tekna að vel ígrunduðu máli þó það sé ýmislegt sem ekki sé hægt að skipuleggja að fullu eða átta sig á fyrr en ferðalagið er hafið.

„Við erum alls ekki að vaða af stað í einhverju hugsunarleysi.“

Guðný ætlar að vera dugleg að birta myndir og myndbönd af ævintýrinu á Instagram-síðu sinni og fyrirtækisins, en áhugasamir geta fylgst með á gudnymatt og puha_gjof.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert