Lögreglan á Norðurlandi eystra segir ástand hafa verið á Akureyri í dag vegna mikils sjávarflóðs í húseignir á svæðinu. Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu embættisins sem birtist laust eftir klukkan fjögur síðdegis.
Dagurinn hefur svo sannarlega verið viðburðaríkur á Akureyri og hefur einkennst bæði af rafmagnsleysi og miklu sjávarflóði sem hefur rutt sér leið inn í hús og lagt undir sig heilu strætin.
Í færslunni kemur fram að ástandið sé að batna og farið að falla vel út. Enn sé þó unnið að dælingu og verið að veita vatni í burtu.
Laufásgata, Kaldbaksgata og Gránufélagsgata neðan við Hjalteyrargötu eru enn lokaðar.
Háflóð er væntanlegt klukkan 22 í kvöld og þá mun lögregla fylgjast vel með stöðu mála. Þá er biðlað til húseigenda á svæðinu að fylgjast vel með stöðu mála og gera allar mögulegar ráðstafanir til þess að forða frekara tjóni.
Loks eru bátaeigendur hvattir til þess að huga vel að þeim bátum sem eru við höfnina.