Veður mun versna eftir því sem líður á daginn og alveg fram á kvöld á Suðausturlandi. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands gerir ráð fyrir mjög stífum meðalvindi upp að 33 m/s og hviðum upp í 60 m/s.
„Þetta er mjög slæmt og óvenjulegt þótt það sé ekki einsdæmi á þessum árstíma,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson veðurfræðingur á veðurstofunni í samtali við mbl.is. Hann segir þetta keimlíkt óveðri sem var í janúarmánuði 2021.
Hviðurnar munu að sögn Eiríks ná nærri 60 m/s sem er ríflega 215 kílómetrar á klukkustund. Til samanburðar má benda á fellibylinn Fíonu sem gengur yfir Kanada um þessar mundir en þar nær vindstyrkurinn 160 kílómetra hraða.
Eiríkur segir að það sé nokkur úrkoma á Norðausturlandi og svolítil úrkoma til fjalla þar en ekki teljandi úrkoma í öðrum landshlutum.
Eiríkur segir lægðina sem gengur yfir landið ekki leifar af neinum fellibyl þótt öfgaveður í Kanada hafi áhrif á veðráttuna hér.
„Vissulega bar hann heitara loft til okkar óbeint. Hlýja loftið sem við fundum í gær skapar óstöðugleika í lofthjúpnum. Þetta eru ekki leifar af honum en hann skapar óstöðugt ástand,“ segir Eiríkur.
Eins og í Kanada hefur lægðin valdið víðtækum rafmagnstruflunum á Norður- og Austurlandi. Þá hefur vatn gengið á land á Akureyri og flætt inn í hús.
Rauð viðvörun er í gildi vegna veðurs á Austfjörðum og appelsínugul á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Suðausturandi og miðhálendi. Eiríkur segir það versta ekki enn yfirstaðið á Suðausturlandi:
„Þar á eftir að bæta í núna alveg fram eftir degi og verður verst þar undir kvöld að öllum líkindum.“