Reyðarfjörður eitt hamfarasvæði

Skammhliðin á vöruhúsi Eimskips er fokin af.
Skammhliðin á vöruhúsi Eimskips er fokin af. Ljósmynd/Ragnar Sigurðsson

Miklar skemmdir hafa orðið á íbúðarhúsnæði og ökutækjum á Reyðarfirði. Foktjón hefur orðið víða, bílrúður og gluggar brotnað og þakskemmdir eru umfangsmiklar, einkum á iðnaðarhúsnæði.

Ragnar Sigurðsson, bæjarfulltrúi á Reyðarfirði, gerði sér ferð út til þess að taka myndir og kanna ástandið. Hann fór akandi og fann að bíllinn tók á sig mikinn vind. Því hefur verið beint til fólks að halda sig innandyra meðan veðrið gengur yfir, og því eru það helst viðbragðsaðilar sem eru á ferli.  

„Það er aftakaveður hérna, einn bragginn á stríðsminjasafninu hrundi, mikið tjón hefur orðið á Byko-skemmunni í miðbænum. Þá eru miklar skemmdir á Mjóeyrarhöfninni og slökkvistöðinni. Sama gildir um húsnæði Eimskips.“

Hann segir gáma á flugi víða um bæinn. „Það má segja að hér sé algert hamfarasvæði í augnablikinu. Ég hef ekki upplifað annað eins áður. Heilu runnarnir eru foknir.“

Bílskúrshurðirnar á slökkvistöðinni urðu vindinum að bráð.
Bílskúrshurðirnar á slökkvistöðinni urðu vindinum að bráð. Ljósmynd/Ragnar Sigurðsson
Engar bílrúður eru óhultar.
Engar bílrúður eru óhultar. Ljósmynd/Ragnar Sigurðsson

Enginn venjulegur vinnudagur framundan

Vindurinn kemur með ofsafengnum hætti í bylgjum, en Ragnar telur ekkert benda til þess að það fari að lægja fyrr en seinna í kvöld. Veðurviðvaranir verða áfram í gildi fram eftir degi á morgun. 

Almannavarnanefnd mun funda á eftir og í kjölfar þess verður tekin ákvörðun um hvort skólahald fari fram á morgun. Hvað snertir atvinnulífið, telur Ragnar ljóst að það verði enginn venjulegur vinnudagur hjá fólki á morgun, enda þurfi líklega að taka til hendinni víða. 

„Við munum loksins sjá umfangið almennilega þegar þetta gengur yfir, en hér hefur orðið mikið tjón.“

Miklar skemmdir eru á Mjóeyrarhöfninni.
Miklar skemmdir eru á Mjóeyrarhöfninni. Ljósmynd/Ragnar Sigurðsson
Bærinn er eitt hamfarasvæði að sögn Ragnars.
Bærinn er eitt hamfarasvæði að sögn Ragnars. Ljósmynd/Ragnar Sigurðsson
Heilu runnarnir og trén hafa fokið upp með rótum.
Heilu runnarnir og trén hafa fokið upp með rótum. Ljósmynd/ Ragnar Sigurðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert