Angró, sögufrægt bryggjuhús á svæði Tækniminjasafns Austurlands, hrundi í óveðrinu í dag. Þakið er enn heilt en veggir hússins féllu saman.
„Við lokuðum bara veginum fyrir utan og svo höfum við ekki verið að hætta okkur mikið nær til þess að skoða þetta, það er stórhættulegt að fara inn á þetta svæði eins og er,“ segir Helgi Haraldsson formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs.
Ástæðan er sú að brak hefur verið að fjúka úr Angró, en húsið laskaðist þegar skriður féllu í desember 2020.
Hann telur að hrun Angró sé stærsta tjónið sem veðurofsinn hefur valdið á Seyðisfirði það sem af er degi, en að auki hafi verið mikið um brotnar bílrúður og ýmis foktjón auk þess sem bátur hafi losnað frá bryggju.