Steinþór Stefánsson
Friðrik Árnason segir aðstæður á Möðrudalsöræfum í morgun hafa verið sláandi er hann átti leið fram hjá Beitarhúsinu, vegasjoppu sem stendur við beygjuna inn á Möðrudalsleið af þjóðvegi eitt.
„Ég kem þarna við í morgun og ætlaði að fá mér kaffi þarna. Mér fannst sláandi að sjá þessa bíla. Ég get ekki ímyndað mér annað en að þeir séu bara ónýtir. Allir bílarnir voru beyglaðir, með opnar dyr. Það hefur verið mikið grjótfok. Hver einasti bíll var með brotna rúðu. Þetta er töluvert tjón,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Aðspurður segist hann ekki hafa orðið var við fólk á ferðinni í morgun.
„Ég geri mér enga grein fyrir því hvort fólk hafi verið að leita sér skjóls eða hvað, en mjög líklega hafa bílarnir verið þarna vegna þess að fólk var að leita sér skjóls og það hefur síðan verið ferjað af björgunarsveitum. Það var enginn þarna í morgun.“