Slökkvilið Fjarðabyggðar varð fyrir miklu tjóni í veðrinu í gær þar sem slökkvistöðin að Hrauni skemmdist er vindhviða skall á stöðinni.
„Það kom einhver hvellur þarna og það fóru nokkrar hurðir af annarri hliðinni og þær skutust inn í hús. Út af þrýstingnum þá sprakk veggurinn út hinum megin í húsinu,“ segir Sigurjón Valmundsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Fjarðabyggðar.
„Til allrar hamingju þá slasaðist enginn og til allrar lukku var enginn í bílasalnum þegar þetta gerðist. Annars hefðu mögulega orðið einhver slys á fólki. En það hrundi úr lofti og flest færðist til sem gat færst til. Það er heljarinnar tjón hérna innanhúss.“
Að sögn hans sluppu tæki almennt en það urðu nokkrar skemmdir á tveim bifreiðum þegar hurðarnar fuku af.
„Það eru fá hús sem urðu ekki fyrir tjóni hérna í kringum okkur. Svo er gámasvæði hérna rétt hjá og það fuku gámar út á haf. Þetta var óvenju kröftugur vindur hérna.“
Á meðan verið er að gera við skemmdirnar hefur björgunarsveitin Ársól lánað slökkviliðinu aðstöðu fyrir vaktina.
„Það er bara svo góð samvinna á milli viðbragðsaðila á svæðinu þannig að við erum núna með slökkvibíl og sjúkrabíla inn í björgunarsveitarhúsi hérna á Reyðarfirði, og vaktin okkar er þar. Þannig að við erum útkallsklár. Við gerum út vaktina hérna á Reyðarfirði þar til slökkvistöðin er orðin fokheld.“