Ísak Gabríel Regal
Ofsaveður á Austurlandi er að ganga niður að sögn Sveins Halldórs Oddssonar Zoëga, formanns svæðisstjórnar björgunarsveita á Austurlandi.
„Það hafa verið lítils háttar útköll, tvö í nótt og í morgun. Það er ansi hvasst ennþá, en nokkuð gott þó miðað við gærdaginn.“
Sveinn segir að líklega hafi flestallt fokið í gær. Björgunarsveitir eru því ekki í meiri viðbragðsstöðu en vant er.
„Þetta er ekkert í líkingu við gærdaginn þar sem röðuðust inn 50 verkefni á skömmum tíma, sérstaklega á Seyðisfirði og Reyðarfirði. Ég hef ekki heyrt af því að nokkur hafi slasast en það hefur orðið mikið tjón á húsnæði.“
Sveinn hefur verið í björgunarsveit í 30 ár. Hann segist hafa séð verra veður í Neskaupstað en man ekki eftir svona miklu tjóni vegna veðurs í samanburði við það sem hefur verið á Reyðarfirði.
„Ég man ekki eftir svona stóru og víðtæku foktjóni. Við gerum ekkert í því þegar það fýkur hlið úr iðnaðarhúsnæði nema passa að enginn sé fyrir brakinu.
Þú bindur þetta ekkert niður eða lokar húsinu í þessu veðri. Þetta snýst bara um að tryggja öryggi fólks.“