„Meðvituð ákvörðun um að auka fíknivandann í landinu“

Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, segir bið eftir ADHD-greiningu „dauðans alvöru“, mikilvægt sé að grípa einstaklinga sem fyrst og veita viðeigandi meðferð.

„Það þýðir ekki að segja við framhaldskólanema að bíða í tvö, þrjú ár eftir greiningu. Hann hrökklast bara úr skóla,“ segir Hrannar og heldur áfram:

„Það er alveg vitað hvað þarf að gera. Það er alveg vitað hvað það kostar. Það að gera það ekki er í raun bara meðvituð ákvörðun um að auka þunglyndi hjá börnum, fjölga glæpum, ótímabærum dauða og auka fíknivandann í landinu.“

Ógreint ADHD leiði fólk á þessar brautir oft á tíðum.

Vilhjálmur Hjálmarsson og Hrannar Björn Arn­ars­son, formaður og framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, …
Vilhjálmur Hjálmarsson og Hrannar Björn Arn­ars­son, formaður og framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna, eru nýjustu gestir Dagmála. mbl.is/Ágúst Óliver

Í byrjun sumars voru um 1.200 fullorðnir á biðlista hjá nýju ADHD-teymi heilsugæslunnar, og tæplega þriggja ára bið eftir greiningu.

Hrannar og Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður samtakanna, eru nýjustu gestir Dagmála, frétta- og menn­ing­ar­lífsþáttar Morg­un­blaðsins.

Eru þeir sammála um að það að fá greiningu komi fólki á betri stað; séu einstaklingar, og þá sér í lagi börn, látnir bíða ýtist þeir lengra út á jaðarinn. 

Lyfja- og samtalsmeðferð lausnin

Vilhjálmur tekur undir með Hrannari. „Við erum fyrirtaksefni í fíkla, nema við fáum að vita rétta stöðu, fáum aðstoð,“ segir hann og bætir við að lyfjameðferð sé sú meðferð sem hafi sýnt mestan árangur.

Lyfjameðferð ein og sér geri þó lítið. „Það verður fleira að vera með.“ Sé einstaklingur með ADHD í bæði lyfja- og samtalsmeðferð rjúki árangurinn upp. Þá skipti rútína einnig höfuðmáli.

„Svo er það náttúrlega maður sjálfur – halda rútínu: Svefn, borða almennilega. Ekkert rugl,“ segir Vilhjálmur og bætir við að ADHD-einkennin verði til trafala þegar rútínan sé slæm en að nokkurs konar ofurkrafti þegar rútínan er góð.

„Sömu eiginleikarnir og þegar ég er í góðu formi láta mig gera hluti sem aðrir geta ekki og skilja ekki hvernig ég get.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert