Margra milljóna tjón varð í tugum íbúða í nokkrum fjölbýlishúsum í Urriðaholti í Garðabæ á föstudaginn. Þá kom upp bilun í rafmagnsgötukassa á vegum HS Veitna sem orsakaði það að spenna hækkaði úr 220V í tæplega 400V í hluta íbúða sem götukassinn var tengdur inn á. Við það bilaði eða skemmdist fjöldi raftækja og í nokkrum stigagöngum hefur ekkert heitt neysluvatn verið á síðan á föstudaginn.
Vart varð við rafmagnstruflanirnar um klukkan sex síðdegis á föstudaginn í húsum númer 8-12, 14-18 og 9-11 við Holtsveg. Í kjölfarið komust íbúar að því að fjölmörg rafmagnstæki voru hætt að virka. mbl.is ræddi við þá Egil Sigmundsson, sviðsstjóra rafmagnssviðs, og Júlíus Jónsson, forstjóra hjá HS Veitum, vegna málsins.
Egill segir að bilun hafi orðið í götukassa sem tengist inn í umrædd fjölbýlishús. Um sé að ræða fimm vísa kerfi með núllun úti í götuskápnum, en umrædd núllun hafi brunnið yfir. „Í hluta íbúðanna hækkaði þá spennan,“ segir hann, en síritar á vegum HS Veitna mældu spennu fara upp í 380V. „Það er það sem raunverulega gerðist og eyðilagði örugglega einhvern búnað,“ bætir hann við.
Egill lýsir því áfram að hækkandi spenna geti brennt yfir rafmagnstæki, en oft eru þó yfirspennuvarnir á rafmagnstækjum, sérstaklega á viðkvæmum tækjum. Þegar slíkar varnir eru til staðar er það eins og þegar öryggi brennur yfir, en ef varnir eru ekki til staðar í tækjunum getur það eyðilagt stjórnborð þeirra.
Samtals eru 118 íbúðir tengdar götukassanum. Egill segir að spennuhækkunin hafi orðið á tveimur af þremur fösum. Skiptist þeir jafnt á íbúðirnar mætti því reikna með tjóni í tveimur þriðja hluta íbúðanna, sérstaklega hjá þeim sem voru að nota tæki á þessum tíma. Það þýðir að tæplega 80 íbúðir gætu hafa orðið fyrir áhrifum af spennuhækkuninni.
Júlíus segir að félagið beini þeim tilmælum til íbúa sem hafi orðið fyrir tjóni að hafa samband við VÍS, tryggingafélag HS Veitna. Spurður hvort þeir líti svo á að HS Veitur beri ábyrgð á tjóninu í þessu tilviki, segir Júlíus að svo vera. „Eins og við höfum séð þetta fyrir okkur núna þá er þetta á okkar ábyrgð og því vísum við á okkar tryggingafélag.“
mbl.is hefur heyrt í tveimur íbúum sem urðu fyrir tjóni. Meta þeir tjón í eigin íbúðum á bilinu 500 þúsund upp í eina milljón. Þá er ekki talinn með kostnaður við varmaskipti sem bilaði í húsunum, dyrasíma, ljósaperur í sameign og jafnvel lyftur. Líklegt er því að tjónið geti numið tugum milljóna, en Júlíus tekur þó fram að HS Veitur hafi enn ekki heildaryfirsýn yfir hversu umfangsmikið tjónið sé eða hvað það er metið á mikið.
Árný Björk Árnadóttir er formaður húsfélagsins við Holtsveg 12-16. Í samtali við mbl.is segir hún að stigagangurinn að Holtsvegi 16 sé án heits neysluvatns, en það á líka við um Holtsveg 14 og mögulega fleiri stigaganga í húsunum. Hún segir að hjá sér hafi m.a. uppþvottavél, frystiskápur, fjöldi hleðslutækja og fartölva, kaffivél og vekjaraklukkur hætt að virka eftir atvikið. Þá hafi hún heyrt um ísskápa og sjónvörp hjá öðrum. Einnig sé dyrabjallan óvirk. Metur hún tjónið allt að einni milljón.
Annar íbúi sem mbl.is ræddi við mat tjónið á um hálfa milljón. Hjá viðkomandi fór frystir, þvottavél, kaffivél, örbylgjuofn og Apple TV. Nefndi íbúinn þó að sjónvarpið hefði ekki bilað, þrátt fyrir að það hefði verið í notkun á þessum tíma. Það versta væri þó að ekkert heitt neysluvatn væri í krönum hússins og ekki hægt að fara í sturtu.
Starfsmenn HS Veitna hafa í dag farið í aðra götukassa í Urriðaholti og yfirfarið þá til að tryggja að viðlíka atvik geti ekki komið upp aftur.