Sprengjusveitin að störfum við Sæbraut

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra og slökkviliði höfuðborgarsvæðis við Austurbrún og Sæbraut í Laugardal í Reykjavík. 

Á svæðinu eru einnig sjúkrabílar til taks. 

Sjónarvottar segja þrjá sérsveitarbíla hafa keyrt hratt að blokk í Austurbrún og sérsveitarmenn farið inn í hana. Einn bíllinn hélt að bensínstöð á Sæbraut þar sem þrír lögreglubílar voru, hið minnsta, og var plan bensínstöðvarinnar rýmt í kjölfarið. 

Síðan þá hafa sjúkrabílar og slökkviliðsbílar verið kallaðir á svæðið.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn segir að aðgerðirnar séu vegna húsleitar.

„Það var húsleit sem var framkvæmd að undangengnum úrskurði í máli sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með til rannsóknar. Þetta er ekki á borði ríkislögreglustjóra,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Uppfært kl. 18.39: Aðgerðir lögreglu og sérsveitar eru ótengdar viðbúnaði á Olís við Sæbraut. Í Austurbrún var verið að framkvæma húsleit. 

Á Olís við Sæbraut var tilkynnt um undarlega hegðun manns og fannst í kjölfarið torkennilegur hlutur á planinu.  

„Sprengjusveit sérsveitarinnar er að aðstoða okkar embætti þar. Það voru kallaðir sprengjusérfræðingar og þá eru ákveðnir verkferlar sem fara í gang, og það eru sjúkrabíll og slökkvibíll sem tengist því. En þetta er eitthvað sem er á fyrstu stigum,“ segir Ásgeir Þór í samtali við mbl.is.

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið uppfærð eftir að nýjar upplýsingar bárust frá lögreglu.

Frá vettvangi rétt í þessu.
Frá vettvangi rétt í þessu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert