Rafmagnsleysið í gær, sem náði yfir hálft landið og teygði sig frá Blönduósi til Hafnar í Hornafirði, var stakur atburður sem orsakaðist af hamförum sem erfitt er að ráða við og aldrei verður hægt að koma alveg í veg fyrir. Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við mbl.is.
Orsök rafmagnsleysisins er rakin til vandamáls tengdu rafmagnslínunni sem liggur frá Fljótsdalsvirkjun niður til Alcoa í Reyðarfirði og röð atvika sem komu upp í kjölfarið. Lýsir Steinunn þessari röð atvika á eftirfarandi hátt:
„Það lítur út fyrir að þegar Fljótsdalslína 4, sem er þessi lína sem liggur frá Alcoa yfir í Fljótsdal, fer út rétt eftir hádegi, komi samtímis upp bilun í þéttavirki í álverinu. Við vitum ekki nákvæmlega hvort þessar truflanir séu út af því að eitthvað hafi fokið á tengivirkið og línuna á sama tíma. Það á eftir að koma í ljós þegar við skoðum línuna. En í kjölfarið verður spennulækkun í álverinu og þá tekur við varnarbúnaður sem keyrir kerskálann frá línunni og kerfinu okkar. Undir venjulegum kringumstæðum hefðum við átt að þola það, en við við misstum afl út á byggðalínuhringinn sem er of veik til að bera það allt saman.“
Steinunn segir að við þessi skilyrði taki varnarbúnaður á byggðalínunni við þannig að það verði rafmagnslaust. Venjulega eigi að vera hægt að reka landið í eyjum, þ.e. í afmörkuðum rafmagnssvæðum, þegar svona ástand kemur upp, en það gekk ekki upp í gær. „Það verður sem sagt rafmagnslaust frá Blöndu að Höfn í Hornafirði að mestu. Húsavík hékk inni, en það var vegna lítillar rafmagnseyju með Laxárlínu. PCC hins vegar datt líka út þar sem virkjunin er á Þeistareykjalínu,“ segir hún.
Í framhaldinu tók svo við að byggja kerfið upp aftur. Tók sú vinna á þriðja tíma og tíndust inn svæði frá Akureyri og austur eftir landinu. Segir Steinunn að nú taki við að skoða þetta mál ofan í kjölinn og ræða við stórnotendur sem urðu fyrir truflunum, eins og PCC og Alcoa. „Við munum draga lærdóm af deginum, hvað gekk vel og hvað gekk ekki vel,“ segir Steinunn og bætir við að þetta hafi verið mjög langvinnt rafmagnsleysi.
„Þetta er mjög óvenjulegur atburður og mjög stór í okkar kerfi. Þetta er ein af stærri truflunum sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarin ár.“ Steinunn segir að venjulega hafi átt að ganga upp að reka kerfið í eyjum og nú verði skoðað af hverju það gekk ekki upp.
Byggðalínan, eða stóra háspennulínukerfið um landið, er um þessar mundir 50 ára gamalt og segir Steinunn að samhliða því að stórum áfanga sé fagnað sé það líka til merkis um að það kerfi sé að koma að enda síns líftíma og að mikilvægt sé að styrkja það kerfi, en unnið hafi verið að því undanfarin ár. Nefnir hún sem dæmi að næsta föstudag verði meðal annars tekin í notkun Hólasandslína 3, sem nær frá Hólasandi til Akureyrar og eigi að auka raforkuöryggi á svæðinu.
Spurð hvort að hægt hefði verið að koma í veg fyrir rafmagnsleysið í gær ef sú lína hefði verið komin í gagnið segir Steinunn erfitt að segja nákvæmlega til um það. „Nýja kynslóðin mun samt klárlega hjálpa til við að auka afhendingaröryggi.“
Hvort skoða þurfi frekar þetta eyjafyrirkomulag og hvernig kerfið slær út í aðstæðum sem þessum segir Steinunn að eyjafyrirkomulagið eigi að vera mjög öflugt. Hún segir ekki til standa að endurskoða það kerfi í heild sinni. „Nei, alls ekki. Það er allt til staðar. Þetta var óvenjulegur atburður og það þarf að rýna vel í það sem fór úrskeiðis.“ Steinunn segir nýlega búið að taka í gagnið ný tengivirki, svokölluð snjall-tengivirki, og segir hún að fyrirtækið eigi að vera vel í stakk búin að takast á við svona hluti.
Veturinn 2019 til 2020 hafði óveður mikil áhrif á rekstur raforkukerfanna og er þá sérstaklega horft til óveðursins í desember 2019 þar sem rafmagnslaust var jafnvel í nokkra sólarhringa á svæðum á Norðurlandi. Spurð hvort nægjanlega mikið hafi verið gert síðan þá til að koma í veg fyrir svona atburði segir hún mikið hafa verið gert, en ómögulegt sé að koma alveg í veg fyrir þá.
„Við höfum síðan 19-20 unnið að því að styrkja kerfið og það hefur gengið vel á bæði Norður- og Austurlandi. En þetta var stakur atburður, hamfaraveður. Það er rosalega erfitt að ráða við storm af þessu tagi og foktjónið og það er eitthvað sem við getum aldrei alveg komið í veg fyrir,“ segir Steinunn.