„Við viljum fá viðurkenningu á öllu ofbeldinu“

Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007.
Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Konurnar sem vistaðar voru sem börn á meðferðarheimilinu á Varpholti/Laugalandi hafa ekki fengið upplýsingar um hvort eða hvernig ríkið muni bregðast við svartri skýrslu sem birt var fyrr í mánuðinum um starfshættina sem voru viðhafðir á heimilinu. Í viðtölum við konurnar lýstu þær grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi af hendi fyrrverandi forstöðumannsins. 

Systur sem vistaðar voru á heimilinu hafa óskað eftir að fá að ræða við Guðmund Inga Guðbrandsson félagsmálaráðherra um málið en hafa fengið þau svör að löng bið sé eftir slíkum fundi.

Gígja Skúladóttir, önnur systirin, segir mörgum spurningum enn ósvarað. Skýrsla Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) hafi skautað fram hjá veigamiklum atriðum í framburði kvennanna sem varði m.a. líkamlegt, kynbundið og trúarlegt ofbeldi.

„Við þurfum ekkert að láta segja okkur hvað andlega ofbeldið var alvarlegt. Við viljum fá viðurkenningu á öllu ofbeldinu sem við urðum fyrir. Ekki bara sumu,“ segir Gígja.

Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var …
Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var einnig vistuð á meðferðarheimilinu. Ljósmynd/Aðsend

Niðurstöður kynntar í dag

Fyrr í dag var haldinn fundur á forritinu Teams þar sem fulltrúar GEV kynntu niðurstöður skýrslunnar, sem er ríflega 200 blaðsíðna löng, fyrir konunum. 

Að sögn Gígju gafst skammur tími fyrir spurningar og er mörgu enn ósvarað.

„Fundinum var síðan bara slaufað. Það var ein þarna sem vildi virkilega spyrja spurninga en henni var bara bent á að senda stofnuninni tölvupóst,“ segir Gígja.

„Mér fannst þetta ótrúlega ódýr afgreiðsla.“

Gígja bendir auk þess á að konurnar sem voru á meðferðarheimilinu hafi ekki allar kost á því að sitja teams-fund enda ekki allar með aðgang að tölvu. 

„Ég upplifi alltaf þessa fjarlægð. Að þær séu í vörn og reyni að halda okkur frá sér.“

Líkamlega ofbeldið ekki kerfisbundið

Eitt af því sem skýrsla GEV hefur sætt gagnrýni fyrir var að kerfisbundið líkamlegt ofbeldi gagnvart konunum hafi ekki verið viðurkennt.

Að sögn Gígju beindust margar spurningar á fundinum að því atriði enda hefur stór hluti kvennanna sem vistaðar voru á meðferðarheimilinu lýst grófu líkamlegu ofbeldi af hendi forstöðumannsins Ingjalds Arnþórssonar. 

„Þetta eru alltaf sömu lýsingarnar, það er hálstakið og stiginn. Stundum hljóp hann á eftir okkur niður stigann og hélt okkur niðri. Þetta eru alltaf sömu hlutirnir. Er það ekki kerfisbundið? Margar okkar slösuðust niður stigann.“

Skömm 

„Ef við förum líka út í það þá var þetta líka kynbundið ofbeldi því það var fylgst með tíðahringnum okkar, við erum sendar ítrekað til kvensjúkdómalæknis til að athuga hvort við séum óléttar eða með kynsjúkdóm. Það er haft orð á hvort við séum að sofa hjá strákum eða hvort við séum lauslátar. Við erum látnar vera í sundbolum sem ná alveg upp fyrir því við áttum ekki að tæla karlmenn.“

Gígja segir þetta hafa haft veruleg áhrif á sig.

„Það er alltaf svona skömm með kynvitundina manns. Þetta er ekki kynferðislegt ofbeldi en þetta er kynbundið ofbeldi.“

Óska eftir fundi með ráðherra

Gígja og systir hennar, Brynja Skúladóttir, hafa nú óskað eftir fundi með Guðmundi Inga félagsmálaráðherra vegna málsins. Vilja þær m.a. fá svör við því hvernig ríkið ætli að bregðast við því sem fram kom í skýrslunni og hvort taka eigi málið lengra.

Ráðuneytið hefur meðtekið beiðnina en í svari til systranna hefur þó komið fram að löng bið sé eftir fundi með ráðherranum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert