Flaug í loftinu með alla anga úti

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bifreið var ekið á 16 ára strák á rafhlaupahjóli í hverfi 105 um klukkan hálfsex í gærkvöldi. Kemur fram í dagbók lögreglu að vitni hafi séð unga manninn „fljúga í loftinu með alla anga úti áður en hann lenti á götunni“.

Þá segir að sá sem var keyrt á hafi fundið til eymsla í handlegg, sem sé mögulega brotinn, en hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild. Hjólið var flutt að heimili stráksins þar sem rætt var við forráðamenn en bifreiðin var fjarlægð af vettvangi með Króki.

Ekið var á annan hjólreiðamann við Dalatorg í Garðabæ á svipuðum tíma í gærkvöldi en þar var maður að hjóla yfir akbraut á gangbraut þegar bifreiðin ók á hann. Maðurinn fann til eymsla í bæði mjöðm og hné.

Staðinn að þjófnaði í raftækjaverslun

Þá var maður staðinn að þjófnaði í raftækjaverslun í Garðabæ í gær. Sá reyndist ekki vera með persónuskilríki meðferðis og var því færður á lögreglustöð til að sannreyna hver hann væri.

Einn var stöðvaður fyrir að hafa ekki gild ökuréttindi og voru skráningarmerki tekin af bifreiðinni sem reyndist ótryggð. Þá var einn stöðvaður grunaður um ölvun við akstur og annar fyrir að keyra á 100 km hraða á Breiðholtsbraut þar sem hámarkshraði er 60 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert