Hæstiréttur tekur fyrir mál Secret Solstice

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstirétt­ur hef­ur samþykkt mál­skots­beiðni umboðsskrif­stofu hljóm­sveit­ar­inn­ar Slayer, vegna dóms Lands­rétt­ar. Í dóm­in­um sýknaði Lands­rétt­ur skipu­leggj­end­ur tón­list­ar­hátíðar­inn­ar Secret Solstice af kröf­um til greiðslu skuld­ar vegna tón­listar­flutn­ings hljóm­sveit­ar­inn­ar á hátíðinni sum­arið 2018. 

Mál­skots­beiðnin byggðist á því að úr­slit máls­ins hefðu veru­legt al­mennt gildi um skýr­ingu og mat á skuld­bind­ing­ar­gildi yf­ir­lýs­inga í fjöl­miðlum. 

Í ákvörðun Hæsta­rétt­ar kem­ur fram að dóm­ur í mál­inu kunni að hafa for­dæm­is­gildi um stofn­un kröfu og greiðslu­skyldu í til­viki fleiri skuld­ara. Því sé rétt að samþykkja mál­skots­beiðnina. 

Ábyrgðar­yf­ir­lýs­ing­ar í fjöl­miðlum

Umboðsskrif­stof­an, K2 Agency Lim­ited, hafði áður höfðað mál til heimtu kröf­unn­ar á hend­ur fé­lag­inu Solstice Producti­ons ehf. sem hélt tón­list­ar­hátíðina 2018 og fyr­ir­svars­manni þess fé­lags, Friðriki Ólafs­syni. 

Bú fé­lags­ins var síðan tekið til gjaldþrota­skipta og lauk skipt­um á því án þess að kraf­an feng­ist greidd. Friðriki var gert að greiða kröf­una á grund­velli ábyrgðar­yf­ir­lýs­ing­ar.

Höfðaði umboðsskrif­stof­an mál á hend­ur Live Events ehf. , Lif­andi viðburðum ehf. og Guðmundi Hreiðars­syni Vil­borg. Var á því byggt að verðmæt­um hefði, með sak­næm­um og ólög­mæt­um hætti, verið ráðstafað frá Solstice Producti­ons ehf. áður en fé­lagið var tekið til gjaldþrota­skipta.

Til vara krafðist umboðsskrif­stof­an þess að Live events ehf. yrði greiðslu­skylt á grund­velli ábyrgðar­yf­ir­lýs­ing­ar Vík­ings Heiðars Arn­órs­son­ar, fram­kvæmda­stjóra fé­lags­ins í fjöl­miðlum.  

Frá tónleikum Slayer á Secret Solstice 2018.
Frá tón­leik­um Slayer á Secret Solstice 2018. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Lands­rétt­ur sneri niður­stöðu héraðsdóms

Í dómi héraðsdóms var fall­ist á kröf­ur umboðsskrif­stof­unn­ar, en í Lands­rétti var niður­stöðunni snúið við. Þar var ekki fall­ist á að fram­kvæmda­stjóri Live events ehf. hefði gefið skuld­bind­andi ábyrgðar­yf­ir­lýs­ingu um að fé­lagið myndi greiða fjár­kröf­una og var fé­lagið því sýknað. 

Þá vísaði Lands­rétt­ur einnig til þess að fyr­ir lægi end­an­leg­ur dóm­ur þar sem Friðriki, fyr­ir­svars­manni Solstice Producti­ons ehf., hefði verið gert að greiða fjár­kröf­una sem málið varðaði og leyf­is­beiðandi og ekki væri full­reynt hvort krafa hans feng­ist greidd úr hendi hans. Því væri ótíma­bært að krefja Live Events ehf., Lif­andi Viðburði ehf. og Guðmund Hreiðars­son Vil­borg um efnd­ir henn­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert