Leggja til að ÁTVR megi hafa opið alla daga

Lagt er til að áfengisútsölustöðum verði ekki lengur skylt að …
Lagt er til að áfengisútsölustöðum verði ekki lengur skylt að hafa lokað á sunnudögum og opinberum frídögum, í frumvarpi sem fimm þingmenn framsóknarflokksins leggja fram. mbl.is/Unnur Karen

Lagt er til að áfengisútsölustöðum verði ekki lengur skylt að hafa lokað á sunnudögum og opinberum frídögum, í frumvarpi sem fimm þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram. 

Með frumvarpinu er, nánar tiltekið, lagt til að ákvæði áfengislaga sem kveða á um að áfengisútsölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst verði felld niður.

Bregðast við nýjum verslunarháttum

„Bann við afgreiðslutíma staða sem selja áfengi og sölu frá framleiðslustað samræmist ekki tíðaranda samfélagsins. Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu stuðlar að frelsi til að veita og sækja þjónustu á framangreindum dögum. Með tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, er talið að veita þurfi áfengisútsölustöðum rýmri heimildir til að bregðast við tilkomu nýrra verslunarhátta,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. 

Bent er á að afgreiðslubann á þessum dögum kunni að leiða til þess að einstaklingar leiti annarra og óæskilegra leiða til að nálgast vörurnar á þeim tíma. 

Flutningsmenn frumvarpsins eru Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta þingi, í sömu mynd, en náði ekki fram að ganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka