Meðalhraðaeftirlit í forgangi næstu 15 árin

Á Grindavíkurvegi hefur verið komið upp meðalhraðaeftirlitsmyndavélum.
Á Grindavíkurvegi hefur verið komið upp meðalhraðaeftirlitsmyndavélum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Innleiðing meðalhraðaeftirlits er í forgangi, að því er fram kemur í umferðaröryggisáætlun til næstu 15 ára sem er í samráðsgátt stjórnvalda um þessar mundir. Er það talið arðbærasta verkefnið sem stjórnvöld geta ráðist í til þess að auka umferðaröryggi. 

Markmið þau sem fram koma í áætluninni eru þau sömu og verið hefur en við það bætist markmið um að lækka slysakostnað á hvern ekinn kílómetra til þess að koma til móts við aukinn akstur. 

Innleiðing á sjálfvirku meðalhraðaeftirliti er nú þegar hafin á Íslandi, en meðalhraðamyndavélum hefur verið komið upp á Grindavíkurvegi og í Norðfjarðargöngum. 

Áhrifameira en punktaeftirlit

Við meðalhraðaeftirlit eru teknar myndir með tveimur myndavélum af hverju ökutæki og er meðalhraðinn á veginum milli myndavélanna reiknaður út frá fjarlægð milli vélanna og tíma milli mynda.

Lækkun slysakostnaðar vegna meðalhraðaeftirlits er talinn vera um tífalt meiri en tilkostnaður. Við þessa áætlun er meðal annars litið til norskrar rannsóknar sem sýnir fram á að alvarlegum slysum hafi fækkað um 49 til 54 prósent á vegköflum með sjálfvirku meðalhraðaeftirliti. Eru þau áhrif metin meiri en áhrif hefðbundins punktaeftirlits. 

Þróun í ranga átt

Fjármagni verður veitt til sérstaks eftirlits lögreglu með ökuhraða, bílbeltanotkun, ölvunar- og vímuefnaakstri og notkun snjalltækja undir stýri. Þá verður nauðsynlegur búnaður til slíks eftirlits endurnýjaður. 

Stefnt verður að aukinni umferðarfræðslu í skólakerfinu og fræðsla erlendra ferðamanna verður aukin. 

Í áætluninni kemur fram að tilteknir þættir virðist vera að þróast í ranga átt og því verði að leggja sérstaka áherslu á að snúa við þeirri þróun. Viðfangsefnin sem um er ræðir eru hraðakstur, smáfarartæki, bílbeltanotkun, snjallsímanotkun undir stýri og akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímugjafa. 

Áfram verður unnið að aðskilnaði akstursstefnu á umferðarmestu vegum landsins, með breikkun þeirra og uppsetningu vegriða. Þá verður unnið að því að fjölga útskotum fyrir ferðamenn og útskotum fyrir atvinnubílstjóra. 

Mikilvægt að skipta út eldri bifreiðum

Nýjar bifreiðar hafa margar að geyma snjalltækni sem býður upp á margvíslegar leiðir til að koma í veg fyrir slys, draga úr meiðslum og flýta fyrir komu viðbragðsaðila. Þar sem umræddum búnaði verður ekki bætt við bifreiðarnar eftir á, er það hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir innflutningi á ökutækjum sem búin eru þessari tækni. 

„Er því mikilvægt að skipta út eldri bifreiðum sem hraðast og auka hlutdeild þeirra bifreiða sem búa yfir nýjustu tækni.“

Meðal frammistöðumarkmiða er að meðalaldur fólksbifreiða verði ekki hærri en 8 ár. 

Vilja færast fram um þrjú sæti

Árlegur kostnaður af umferðarslysum er metinn 40 milljarðar króna.

Yfirmarkmið umferðaröryggisáætlunar til ársins 2037 eru þríþætt. Í fyrsta lagi að Ísland verði í hópi þeirra fimm Evrópuþjóða sem hafa lægst hlutfall fjölda látinna í umferðinni á hverja 100 þúsund íbúa, en nú er Ísland í áttunda sæti.

Í öðru lagi að látnum og alvarlega slösuðum fækki að jafnaði um 5 prósent til ársins 2037 og í þriðja lagi, að slysakostnaður á hvern ekinn kílómetra lækki að jafnaði um 5 prósent á ári.

Nýtt markmið er snertir eldri ökumenn 

Þá eru einnig tólf undirmarkmið. 

Skjáskot úr umferðaröryggisáætlun.

Aðild eldri ökumanna í alvarlegum slysum eða banaslysum er nýtt markmið, og var tekin ákvörðun um að orða það með sama hætti og slys með aðild yngstu ökumanna. 

Framkvæmd áætlunarinnar er á forræði innviðaráðuneytisins en ábyrgð verkefna er hjá Vegagerðinni, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra, auk ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert