Meðalhraðaeftirlit í forgangi næstu 15 árin

Á Grindavíkurvegi hefur verið komið upp meðalhraðaeftirlitsmyndavélum.
Á Grindavíkurvegi hefur verið komið upp meðalhraðaeftirlitsmyndavélum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Inn­leiðing meðal­hraðaeft­ir­lits er í for­gangi, að því er fram kem­ur í um­ferðarör­ygg­is­áætl­un til næstu 15 ára sem er í sam­ráðsgátt stjórn­valda um þess­ar mund­ir. Er það talið arðbær­asta verk­efnið sem stjórn­völd geta ráðist í til þess að auka um­ferðarör­yggi. 

Mark­mið þau sem fram koma í áætl­un­inni eru þau sömu og verið hef­ur en við það bæt­ist mark­mið um að lækka slysa­kostnað á hvern ek­inn kíló­metra til þess að koma til móts við auk­inn akst­ur. 

Inn­leiðing á sjálf­virku meðal­hraðaeft­ir­liti er nú þegar haf­in á Íslandi, en meðal­hraðamynda­vél­um hef­ur verið komið upp á Grinda­vík­ur­vegi og í Norðfjarðargöng­um. 

Áhrifa­meira en punkta­eft­ir­lit

Við meðal­hraðaeft­ir­lit eru tekn­ar mynd­ir með tveim­ur mynda­vél­um af hverju öku­tæki og er meðal­hraðinn á veg­in­um milli mynda­vél­anna reiknaður út frá fjar­lægð milli vél­anna og tíma milli mynda.

Lækk­un slysa­kostnaðar vegna meðal­hraðaeft­ir­lits er tal­inn vera um tí­falt meiri en til­kostnaður. Við þessa áætl­un er meðal ann­ars litið til norskr­ar rann­sókn­ar sem sýn­ir fram á að al­var­leg­um slys­um hafi fækkað um 49 til 54 pró­sent á veg­köfl­um með sjálf­virku meðal­hraðaeft­ir­liti. Eru þau áhrif met­in meiri en áhrif hefðbund­ins punkta­eft­ir­lits. 

Þróun í ranga átt

Fjár­magni verður veitt til sér­staks eft­ir­lits lög­reglu með öku­hraða, bíl­belta­notk­un, ölv­un­ar- og vímu­efna­akstri og notk­un snjall­tækja und­ir stýri. Þá verður nauðsyn­leg­ur búnaður til slíks eft­ir­lits end­ur­nýjaður. 

Stefnt verður að auk­inni um­ferðarfræðslu í skóla­kerf­inu og fræðsla er­lendra ferðamanna verður auk­in. 

Í áætl­un­inni kem­ur fram að til­tekn­ir þætt­ir virðist vera að þró­ast í ranga átt og því verði að leggja sér­staka áherslu á að snúa við þeirri þróun. Viðfangs­efn­in sem um er ræðir eru hraðakst­ur, smáfar­ar­tæki, bíl­belta­notk­un, snjallsíma­notk­un und­ir stýri og akst­ur und­ir áhrif­um áfeng­is og annarra vímu­gjafa. 

Áfram verður unnið að aðskilnaði akst­urs­stefnu á um­ferðarmestu veg­um lands­ins, með breikk­un þeirra og upp­setn­ingu vegriða. Þá verður unnið að því að fjölga út­skot­um fyr­ir ferðamenn og út­skot­um fyr­ir at­vinnu­bíl­stjóra. 

Mik­il­vægt að skipta út eldri bif­reiðum

Nýj­ar bif­reiðar hafa marg­ar að geyma snjall­tækni sem býður upp á marg­vís­leg­ar leiðir til að koma í veg fyr­ir slys, draga úr meiðslum og flýta fyr­ir komu viðbragðsaðila. Þar sem um­rædd­um búnaði verður ekki bætt við bif­reiðarn­ar eft­ir á, er það hlut­verk stjórn­valda að greiða fyr­ir inn­flutn­ingi á öku­tækj­um sem búin eru þess­ari tækni. 

„Er því mik­il­vægt að skipta út eldri bif­reiðum sem hraðast og auka hlut­deild þeirra bif­reiða sem búa yfir nýj­ustu tækni.“

Meðal frammistöðumark­miða er að meðal­ald­ur fólks­bif­reiða verði ekki hærri en 8 ár. 

Vilja fær­ast fram um þrjú sæti

Árleg­ur kostnaður af um­ferðarslys­um er met­inn 40 millj­arðar króna.

Yf­ir­mark­mið um­ferðarör­ygg­is­áætl­un­ar til árs­ins 2037 eru þríþætt. Í fyrsta lagi að Ísland verði í hópi þeirra fimm Evr­ópuþjóða sem hafa lægst hlut­fall fjölda lát­inna í um­ferðinni á hverja 100 þúsund íbúa, en nú er Ísland í átt­unda sæti.

Í öðru lagi að látn­um og al­var­lega slösuðum fækki að jafnaði um 5 pró­sent til árs­ins 2037 og í þriðja lagi, að slysa­kostnaður á hvern ek­inn kíló­metra lækki að jafnaði um 5 pró­sent á ári.

Nýtt mark­mið er snert­ir eldri öku­menn 

Þá eru einnig tólf und­ir­mark­mið. 

Skjá­skot úr um­ferðarör­ygg­is­áætl­un.

Aðild eldri öku­manna í al­var­leg­um slys­um eða bana­slys­um er nýtt mark­mið, og var tek­in ákvörðun um að orða það með sama hætti og slys með aðild yngstu öku­manna. 

Fram­kvæmd áætl­un­ar­inn­ar er á for­ræði innviðaráðuneyt­is­ins en ábyrgð verk­efna er hjá Vega­gerðinni, Sam­göngu­stofu og rík­is­lög­reglu­stjóra, auk ráðuneyt­is­ins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert