Skólahald í Ármúla á vegum Hagaskóla fer fram með öðruvísi hætti í dag þar sem húsnæðið verður tvísetið. Árgangarnir tveir sem sækja þar kennslu þurfa að skiptast á að nota rýmið þar sem ekki verður hægt að hýsa þá báða samtímis þar sem brunavörnum er ábótavant.
Vífill Harðarson, formaður foreldrafélags Hagaskóla, segir ekki um framtíðarlausn að ræða. Samtalinu við skólann sé ekki lokið en mikilvægt hafi verið að finna lausn svo ekki hafi þurft að fella skólastarf niður. Hann kvaðst þó ekki geta sagt til um hversu lengi þetta fyrirkomulag yrði í gildi.
Húsnæði í Ármúla sem notað er undir kennslu nemenda í 8. og 9. bekk í Hagaskóla fór ekki í samþykktarferli hjá byggingarfulltrúa og var þess vegna ekki yfirfarið af slökkviliðinu áður en kennsla hófst þar. Húsráðendum hefur verið gefinn frestur til 12. október til þess að bæta úr þeim vanköntum sem þegar eru til staðar á brunavörnum.
Á sunnudaginn kom í ljós að kennsla í Ármúla yrði felld niður á mánudaginn. Í ályktun stjórnar foreldrafélags Hagaskóla var mikilli óánægju lýst vegna þess.
„Í kjölfar þess að mygla uppgötvaðist í Hagaskóla á liðnum vetri hafa nemendur mátt þola margvíslegar raskanir á skólastarfi. Líkt og oft gerist hafa þær raskanir bitnað verst á þeim sem síst skyldi. Nú bætist við að skólastarf mánudaginn 26. september hefur verið fellt niður,“ segir þar.
Skólastjórnendur í Hagaskóla boðuðu til fundar með foreldrafélaginu, skólaráði, borgaryfirvöldum og slökkviliðinu vegna málsins og fór hann fram í gær.
Að sögn Vífils var fundurinn mjög uppbyggilegur. „Ég upplifði ekki annað en að allir væru í sama liði og væru með sama markmiðið. Það er uppi staða sem er mjög óheppileg, svo ekki sé annað sagt, en það er verið að reyna að finna lausn á málinu.“
Að sögn Vífils hefur slökkviliðið ekki gert neinar verulegar athugasemdir við neðstu hæðina og heldur ekki hluta af annarri hæðinni svo skólahald getur haldið áfram þar.
„Svo þarf að sjá hvaða tíma það tekur að koma húsnæðinu í meiri nýtingu.“
Vífill kvaðst þó ekki vilja fara nánar út í þá möguleika sem voru ræddir á fundinum.
Í ályktun stjórnar foreldrafélagsins kom einnig fram að áhyggjur foreldra hefðu meðal annars beinst að öryggi í tengslum við rútuferðir og umferðaröryggi á svæðinu í Ármúla, sem ekki væri vel fallið til skólastarfs.
Aðspurður segir Vífill umferðaröryggi ekki hafa verið rætt á fundinum. Það liggi þó fyrir að framkvæmdir séu nauðsynlegar en þær muni taka tíma.