Stjórn Ferðafélag Íslands lýsir yfir vonbrigðum og furðu með hvernig fráfarandi forseti lýsir viðskilnaði sínum við félagið, að því er kemur fram í tilkynningu.
Fyrr í dag sagði Anna Dóra Sæþórsdóttir af sér sem forseti Ferðafélags Íslands og sömuleiðis úr félaginu. Hún sagðist ekki getað starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem ganga þvert á hennar eigin gildi, ráði ríkjum.
„Stjórnin vísar algjörlega á bug þeim ásökunum og lýsingum sem hún setur fram í yfirlýsingu sinni,“ segir jafnframt í tilkynningu félagins.
Þá segir að hjá Ferðafélagi Íslands hafi verið til staðar fagleg ferli og viðmið um hvernig skal tekið á málum sem koma upp í samskiptum innan félagsins, þar með talið mál er varða kynferðislega áreitni.
En í uppsagnarbréfinu lýsir Anna Dóra því hvernig hún hafi tekið á málum er varða brot á siðareglum félagsins, áreitni og kynferðislegt ofbeldi sem hafi leitt til þess að stjórnarmaður hafi sagt af sér. Hún segir mikinn ágreining hafa komið upp í stjórn félagsins um meðhöndlun málanna og bendir á að góðvinur fyrrverandi stjórnarmannsins hafi viljað að hann fengi aftur að starfa hjá félaginu.
„Tekið hefur verið á öllum málum af þessu tagi með faglegum og skipulögðum hætti og þau leidd til lykta,“ segir í tilkynningu félagsins.
„Stjórn Ferðafélagsins getur staðfest að til staðar hafa verið vandamál í samskiptum innan stjórnar við fráfarandi forseta. Þessi samskiptavandi er tilkominn vegna stjórnarhátta hennar og framkomu við framkvæmdastjóra félagsins.“
Þá segir að lokum að stjórnin sé skipuð fjölbreyttum hópi einstaklinga úr ólíkum áttum, bæði konum og körlum, og að allt stjórnarfólk hafni þeim lýsingum sem fráfarandi forseti hefur komið með.