Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir félagið munu senda frá sér yfirlýsingu í hádeginu varðandi afsögn Önnu Dóru Sæþórsdóttur.
Fyrr í dag sagði hún af sér sem forseti Ferðafélags Íslands og sömuleiðis úr félaginu. Hún sagðist ekki getað starfað í félagi þar sem stjórnarhættir og siðferðisleg gildi, sem ganga þvert á hennar eigin gildi, ráða ríkjum.
„Það sem þarna kemur fram er því miður ekki allt saman satt og rétt,“ segir Páll í samtali við mbl.is.
Þá tekur Gísli Már Gíslason, stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, undir með Páli og segir gagnrýnina sem Anna Dóra setur fram í uppsagnarbréfinu ekki rétta. Hann kveðst þó ekki vilja tjá sig frekar.
Í bréfinu lýsir Anna Dóra því hvernig hún hafi tekið á málum er varða brot á siðareglum félagsins, áreitni og kynferðislegt ofbeldi sem hafi leitt til þess að stjórnarmaður hafi sagt af sér. Hún segir mikinn ágreining hafa komið upp í stjórn félagsins varðandi meðhöndlun málanna og bendir á að góðvinur fyrrverandi stjórnarmannsins hafi viljað að hann fengi aftur að starfa hjá félaginu.
Samkvæmt heimildum mbl.is er fyrrverandi stjórnarmaðurinn Helgi Jóhannesson og góðvinurinn Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands.
Helgi hætti störfum sem yfirlögfræðingur hjá Landsvirkjun í fyrra eftir að starfsmaður fyrirtækisins kvartaði yfir hegðun hans. Skömmu síðar sagði hann sig úr stjórn Ferðafélags Íslands.
Ekki náðist í Tómas Guðbjartsson við vinnslu fréttarinnar.
Uppfært: