Tómas Guðbjartsson, læknir og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, hefur fundið sig knúinn til að tjá sig vegna ásakana af hálfu fyrrverandi forseta félagsins, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, í kjölfar afsagnar hennar.
„Ég hef aldrei lagt til að fyrrverandi stjórnarmaður tæki aftur sæti í stjórn félagsins, eða krafist þess að hann komi aftur til starfa fyrir félagið. Hann hefur heldur ekki krafist þess og var nýr stjórnarmaður kosinn í hans stað á síðasta aðalfundi félagsins,“ skrifar Tómas í færslu á facebooksíðu sinni.
Hann segir að umræddur stjórnarmaður hafi sent stjórn félagsins erindi síðastliðið vor þar sem hann óskaði eftir því að fá að útskýra sína hlið á skyndilegu brotthvarfi úr stjórn í nóvember 2021.
„Taldi ég á stjórnarfundi rétt að erindið fengi formlega umfjöllun stjórnar, sem forseti taldi ekki ástæðu til, en mér var falið að koma á óformlegum fundi sem forseti hugðist ekki sækja.“
Tómas segir viðskilnað forseta við stjórn og framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands sorglegt mál, ekki síst fyrir Ferðafélag Íslands. Staðreyndum sé snúið á hvolf og umræðan færð frá þeim alvarlega samskiptavanda sem litað hafi störf stjórnar síðastliðið ár.