Uppáhalds sundlaug Íslendinga

Landsmenn eru hrifnastir af Sundlaug Akureyrar.
Landsmenn eru hrifnastir af Sundlaug Akureyrar. mbl.is/Skapti

Sundlaug Akureyrar er sú sundlaug landsins sem flestir segja vera í mestu uppáhaldi hjá sér samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Samtals gáfu 1.590 manns upp afstöðu um uppáhalds sundlaug, en af þeim sögðu 154, eða 9,7% að Sundlaug Akureyrar væri þeirra uppáhaldslaug.

Sú laug sem kemur næst er Sundlaug Kópavogs, en 118 manns, eða 7,4% sögðu þá laug vera sína uppáhalds. Þá sögðu 113 manns, eða 7,1% Lágafellslaug vera uppáhalds sundlaugina sína. Þar á eftir komu Laugardalslaug og Árbæjarlaug með 6,6% og Salalaug með 5,7%.

Sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu raða sér í 13 af efstu 18 sætunum, en taka verður með í reikninginn að oft og á tíðum eru íbúar þar jafnframt flestir á hverja sundlaug. Þær laugar á höfuðborgarsvæðinu sem komust ekki á topplistann eru Ásgarðslaug í Garðabæ, Ásvallalaug í Hafnarfirði, Klébergslaug á Kjalarnesi, Sundhöll Hafnarfjarðar og Varmárlaug í Mosfellsbæ.

Graf/Maskína

Reykvíkingar hrifnastir af Laugardalslaug

Af laugum utan höfuðborgarsvæðisins sem komust á topplistann fyrir utan Sundlaug Akureyrar eru Þelamerkurlaug, Sundlaugin á Hofsósi og Vatnaveröld í Reykjanesbæ.

Þegar búseta svarenda er skoðuð sést að römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Þannig segja 37,8% svarenda á Norðurlandi að Sundlaug Akureyrar sé þeirra uppáhalds laug. Í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er Sundlaug Kópavogs í mestu uppáhaldi, eða hjá 19,4% svarenda og Lágafellslaug meðal 10,4% svarenda.

Reykvíkingar eru hins vegar hrifnastir af Laugardalslaug (12,2%) og Árbæjarlaug (11,7%).

Sundlaug Kópavogs er í öðru sæti yfir uppáhalds sundlaugar landsins.
Sundlaug Kópavogs er í öðru sæti yfir uppáhalds sundlaugar landsins. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert