Eldsupptök í verslunar- og þvottahúsnæði Vasks á Egilsstöðum eru ekki enn ljós. Mikill eldur logar enn í húsnæðinu að sögn Kristjáns Ólafs Guðnasonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Austurlandi.
„Það er ekki talið að neinn hafi verið í inni eða í hættu vegna eldsins. Það logar hins vegar mikill eldur þarna núna og verið að tryggja að hann berist ekki í nærliggjandi húsnæði eða dreifi sér frekar,“ segir Kristján. Slökkvistarf virðist ganga vel.
Lögð er rík áhersla á að eldurinn nái ekki að dreifa sér, þar sem Landsnet er einnig staðsett í húsinu að sögn Kristjáns.
„Það eru tilmæli til íbúa í nærliggjandi hverfum að halda gluggum lokuðum vegna reyks,“ segir Kristján. Hann segir ekki tímabært að ræða eldsupptök núna en þau séu ekki ljós.
Allt tiltækt slökkvilið var kallað á staðinn, þar á meðal slökkviliðið á Egilsstöðum og slökkviliðið í Fjarðabyggð.