Segja Önnu hafa reynt einhliða að skipta Páli út

Anna Dóra, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, er sökuð um ólýðræðisleg …
Anna Dóra, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, er sökuð um ólýðræðisleg vinnubrögð í pósti stjórnar til félagsfólks.

Full­yrt er í pósti stjórn­ar Ferðafé­lags Íslands, sem send­ur var til fé­lags­fólks í dag, að fljót­lega eft­ir að Anna Dóra Sæþórs­dótt­ir tók við við sem for­seti fé­lags­ins hafi farið að bera á ólýðræðis­leg­um vinnu­brögðum henn­ar. Hún hafi meðal ann­ars hafið viðræður við fram­kvæmda­stjóra um starfs­lok hans, án vit­und­ar stjórn­ar.

Þá hafi hún hvorki viljað fá ut­anaðkom­andi ráðgjafa til að reyna að leysa þann sam­skipta­vanda sem skap­ast hafði né halda sig til hlés á meðan reynt var að leysa hann.

Anna Dóra sagði af sér sem for­seti Ferðafé­lags Íslands í gær og vandaði stjórn­inni ekki kveðjurn­ar í færslu sem hún ritaði á Face­book. Sagðist hún ekki geta starfað í fé­lagi þar sem stjórn­ar­hætt­ir og siðferðis­leg gildi, sem gengju þvert á henn­ar eig­in gildi, réðu ríkj­um.

Í póst­in­um til fé­lags­fólks seg­ir að stjórn­inni hafi ekki þótt rétt að greina fé­lags­fólki frá vanda­mál­un­um í þeirri von að hægt yrði að leysa þau með far­sæl­um hætti með hags­muni fé­lags­fólks að leiðarljósi. Það hafi hins veg­ar orðið ljóst eft­ir til­kynn­ingu Önnu Dóru að svo yrði ekki.

Báðu Önnu Dóru að halda sig til hlés

Tekið er fram að mik­ill kraft­ur hafi fylgt Önnu Dóru og hún hafi í upp­hafi notið stuðnings og trausts allra í stjórn. Meðal ann­ars hafi verið farið í stefnu­mót­andi vinnu og verklags­regl­ur um góða stjórn­ar­hætti end­ur­bætt­ar og verk­ferl­ar er snerta einelti, kyn­ferðis­lega eða kyn­bundna áreitni og of­beldi upp­færðir.

Fljót­lega hafi hins veg­ar farið að bera á ólýðræðis­leg­um vinnu­brögðum for­seta.

„Stærsti ásteyt­ing­ar­steinn­inn var þegar for­seti vildi ein­hliða skipta út fram­kvæmda­stjóra okk­ar, Páli Guðmunds­syni, án þess að fyr­ir því lægju mál­efna­leg­ar ástæður og eng­in form­leg til­laga um slíkt hefði verið bor­in und­ir stjórn. Án sam­ráðs ákvað for­seti engu að síður að hefja viðræður um starfs­lok við fram­kvæmda­stjór­ann og það án vit­und­ar stjórn­ar. Þegar stjórn­in komst að því, og lýsti sig ósam­mála, urðu öll sam­skipti við for­seta mjög erfið. Í fram­haldi tók við tíma­bil þar sem fram­koma for­seta gagn­vart fram­kvæmda­stjóra gerði hon­um erfitt að sinna starfi sínu.“

Í byrj­un júní síðastliðins hafi stjórn­inni orðið ljóst að ekki yrði búið við óbreytt ástand og var því óskað eft­ir því við Önnu Dóru að hún héldi sig til hlés um stund­ar­sak­ir á meðan unnið væri að því að leysa sam­skipta­vand­ann. Því hafi hún hafnað, sem og að leita til ut­anaðkom­andi ráðgjafa til að bæta sam­skipt­in.

Fram­kvæmda­stjóri kvartaði und­an einelti 

„Á sama tíma hafði fram­kvæmda­stjóri lagt fram form­lega kvört­un vegna einelt­is af hálfu for­seta og voru ný­upp­færðar verklags­regl­ur Ferðafé­lags­ins í einelt­is­mál­um því virkjaðar og leitað aðstoðar ut­anaðkom­andi sér­fræðinga. Í kjöl­far þess barst stjórn tölvu­póst­ur frá for­seta með ávirðing­um um að rekst­ur fé­lags­ins væri í ólestri. Þess­ar full­yrðing­ar voru al­veg á skjön við ræðu for­seta á aðal­fundi í mars sl. og árs­skýrslu stjórn­ar sem samþykkt var á sama fundi, en þar kom ein­mitt fram að rekst­ur fé­lags­ins stæði ein­stak­lega vel. Til þess að bregðast við þess­um at­huga­semd­um for­seta ákvað stjórn að fá álit end­ur­skoðanda sem staðfesti að rekst­ur­inn væri traust­ur og fjár­hags­staða sterk og þau gögn lögð fyr­ir á stjórn­ar­fundi þann 28. júní sl.“

Þá hafi Anna Dóra einnig komið með at­huga­semd­ir við hvernig haldið hefði verið á mál­um í tengsl­um við kyn­ferðis­lega áreitni. Hún hafi ým­ist gagn­rýnt að fram­kvæmda­stjóri hefði eytt of mikl­um tíma í að sinna slík­um mál­um eða að of lítið hefði verið gert.

„Allt þetta ár hef­ur stjórn Ferðafé­lags­ins leitað allra leiða til að leiða þessi sam­skipta­mál við for­seta til lykta með far­sæl­um hætti fyr­ir fé­lagið. Okk­ur þykir miður að það tókst ekki. Stjórn­in mun engu að síður halda áfram að leita leiða til þess að tryggja frið um starf­semi fé­lags­ins og verða þessi mál tek­in til umræðu á næsta aðal­fundi þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert