Veiðimaðurinn farinn heim til Spánar

Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður.
Maðurinn sem slasaðist er reyndur veiðimaður. mbl.is/Einar Falur

Spænski veiðimaður­inn sem fékk raf­lost eft­ir að hafa rekið veiðistöng sína í há­spennu­línu í Eystri-Rangá í byrj­un mánaðar­ins er far­inn heim til Spán­ar.

Að sögn Gunn­ars Guðjóns­son­ar, yf­ir­leiðsögu­manns í Eystri-Rangá, fór hann til síns heima nokkr­um dög­um eft­ir slysið. Veiðimaður­inn, sem er á sex­tugs­aldri, brennd­ist á fót­um og á kvið. Spurður seg­ist Gunn­ar telja að hann sé enn á spít­ala.

Biðja menn að passa sig

Maður­inn var hluti af 14 manna hópi Spán­verja sem var að veiða í ánni. Með hon­um á svæðinu þar sem hann slasaðist voru þrír aðrir, ásamt leiðsögu­manni. 

„Þetta er mjög óvenju­legt slys en auðvitað pöss­um við upp á það og ít­rek­um við þá sem eru með svona verk­færi að passa sig,“ bæt­ir Gunn­ar við, spurður hvort um­sjón­ar­menn ár­inn­ar leggi meiri áherslu á það en áður að veiðimenn fari var­lega. Um­rædd­ur maður hélt á veiðistöng af gerðinni Telescope, sem geta verið allt að tíu metra lang­ar.

Starfsmaður RARIK kannaði aðstæður

Gunn­ar nefn­ir að starfsmaður RARIK hafi komið á staðinn eft­ir slysið til að kanna aðstæður og hann hafi ekk­ert séð at­huga­vert. All­ar merk­ing­ar á staur­um hafi verið til staðar.

Sveinn Kristján Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­landi, seg­ir að rann­sókn á mál­inu sé lokið. Rætt hafi verið við mann­inn, ásamt fólki sem var á staðnum þegar slysið varð. Sveinn Kristján kveðst ekki hafa upp­lýs­ing­ar um líðan manns­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert