„Við vorum stopp og síðan bara hristist allt“

50 menntskælingar í Verzlunarskóla Íslands bíða nú á Heathrow-flugvellinum í …
50 menntskælingar í Verzlunarskóla Íslands bíða nú á Heathrow-flugvellinum í Lundúnum án farangurs. Ljósmynd/Aðsend

„Þau sem voru vinstra megin í flugvélinni sjá einhverja flugvél og voru bara að pæla hvort hún ætlaði ekkert að stoppa. Síðan fann maður bara hristing.“ Þetta segir Erna Sólveig Sverrisdóttir en hún var ein farþega í Icelandair-flugvélinni sem önnur flugvél rakst á rétt fyrir klukkan átta í kvöld, á Heathrow-flugvelli í Lundúnum.

Að sögn Ernu voru hún og aðrir farþegar í vélinni að bíða eftir því að flugvélin kæmist að hliðinu þegar vængur flugvélar Korean Air skall á stélinu á flugvél Icelandair. 

„Við vorum stopp og síðan bara hristist allt.“

Skrítin upplifun

Að mati Ernu var þetta einstaklega skrítin upplifun en hún segir að farþegum hafi verið mikið brugðið við þetta. 

„Það voru samt einhverjir sem sáu þetta svo við vissum öll strax hvað gerðist,“ segir Erna, fegin að vera laus við alla óvissu um hvað olli hristingnum.

50 menntskælingar í vélinni

Erna hefur nú beðið eftir farangri sínum á flugvellinum í Heathrow í tvær klukkustundir ásamt 50 öðrum krökkum á sínum aldri. Þau eru öll í sameiginlegri ferð á vegum Verzlunarskóla Íslands. Ferðin er partur af sérstökum Harry Potter-valáfanga og eru því kennarar úr Verzlunarskólanum með í för.

Þau fengu nýlega þær fregnir frá Icelandair að þau ættu að yfirgefa völlinn og að ekki væri von á farangrinum í kvöld. 

„Stundum er búið að segja að við eigum að fá þær en síðan kom annar og sagði að við myndum ekki fá þær. Kennararnir vita meira að segja ekki neitt,“ segir Erna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka