Ákærðir fyrir frelsissviptingu í Laugardal

Héraðssaksóknari gefur út ákæru í málinu.
Héraðssaksóknari gefur út ákæru í málinu. mbl.is/Hjörtur

Tveir karlmenn, annar á þrítugsaldri og hinn tæplega fertugur, hafa verið ákærðir fyrir frelsissviptingu og rán með því að hafa svipt karl og konu frelsi sínu í um klukkustund í apríl 2020.

Samkvæmt ákæru málsins eru mennirnir sakaðir um að hafa sest í aftursæti bifreiðar þar sem hún stóð kyrr fyrir framan Hagkaup í Skeifunni. Sat karlmaðurinn í ökumannssæti bifreiðarinnar, en konan í farþegasætinu fram í.

Í ákærunni segir að mennirnir tveir hafi lagt hníf að hálsi þeirra, kýlt þau bæði og hótað að stinga þau með sprautunál auk annarra lífláts- og líkamsmeiðingarhótana.

Var ökumanninum því næst skipað að aka bifreiðinni að Glæsibæ þar sem annar hinna ákærðu tók við akstrinum og ók að Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Þar þvinguðu þeir manninn að millifæra 780 þúsund krónur inn á reikning yngri mannsins sem ákærður er.

Því næst var manninum sem hafði verið að keyra bifreiðina skipað að keyra að Metro við Suðurlandsbraut, en þar tóku tvímenningarnir iPhone-síma fólksins og bíllyklana áður en fólkið var yfirgefið. Fram kemur í ákærunni að konan hafi hlotið vægan heilahristing.

Ákæruvaldið fer fram á að mennirnir verði báðir dæmdir til refsingar, en auk þess fer maðurinn fram á tæplega 1,5 milljón í skaða- og miskabætur og konan fer fram á 700 þúsund krónur.

Málið hefur þegar verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert