„Ég var með stöðugan kvíðahnút og gat ekki sofið“

Anna Dóra segist stolt af því sem hún áorkaði, þrátt …
Anna Dóra segist stolt af því sem hún áorkaði, þrátt fyrir mikinn mótvind.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands, segir það af og frá að hún hafi einhliða ætlað að skipta út framkvæmdastjóra félagsins og hafið við hann viðræður um starfsfólk án vitundar stjórnar, líkt og haldið var fram í bréfi núverandi forseta til félagsfólks í gær.

„Í mars hringdi framkvæmdastjórinn í mig og sagði starfi sínu lausu. Ástæðurnar sem hann nefndi voru þær að hann væri kominn með leiða á vinnunni og að honum þætti verkefnin sem hann var að vinna við ekki skemmtileg. Ég átti ekki í neinum viðræðum við framkvæmdastjórann um starfslok, nema til að bregðast við þessari uppsögn hans. Þessi mál voru rædd á næsta fundi stjórnar og þar komu fram ólíkar meiningar um málið,“ skrifaði Anna Dóra í færslu á Facebook í morgun. Hún hafi þó ekki hafa dregið dul á að hún hafi í nokkurn tíma talið gott fyrir félagið að ráðinn yrði nýr framkvæmdastjóri.

Anna Dóra tekur fram að hún hafi ekki ætlað að tjá sig meira um afsögn sína sem forseta, en í ljósi ítrekaðra árása og rangfærslna í hennar garð, bæði í fjölmiðlum og fyrrnefndu bréfi til félagsfólks, geti hún ekki orða bundist.

„Mér finnst óþægilegt að horfa upp á stjórn félagsins, og þá einkum Sigrúnu forseta, tala eins og öll vandamál félagsins megi rekja til mín og að stjórn hafi ítrekað reynt að leiða samskiptamál við mig til lykta. Ég kannast ekki við þær tilraunir stjórnar, þvert á móti,“ segir Anna Dóra.

Rangt að tekið hafi verið á öllum málum

Í færslunni vísar hún á bug fullyrðingum núverandi forseta, Sigrúnar Valbergsdóttur, um að öll mál sem hefðu komið upp á undanförnum árum er vörðuðu kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi eða einelti hefðu verið meðhöndluð í samræmi við verklagsreglur félagsins.

Þegar hún hafi tekið við sem forseti hafi komið í ljós mál sem ekki hafi verið tekið á. Til að mynda eitt sem snerti fararstjóra sem ítrekað hafði gerst brotlegur á siðareglum félagsins í samskiptum við kvenkyns farþega í ferðum. Annað snerti stjórnarmann sem hafði verið ásakaður um alvarlegt kynferðislegt ofbeldi og áreitni, bæði í ferðum á vegum félagsins og utan þess.

„Framkvæmdastjóra og núverandi forseta hafði verið kunnugt um þessar ásakanir í nokkur ár án þess að bregðast við þeim á nokkurn hátt. Þvert á móti fengu þessir aðilar að halda áfram að starfa sem fararstjórar á vegum félagsins. Það var ekki fyrr en ég beitti mér, í óþökk annars stjórnarfólks, að tekið var á þessum málum.“

Stolt af því sem hún áorkaði 

Þá segir hún Tómas Guðbjartsson, lækni og stjórnarmann í Ferðafélagi Íslands, hafa barist fyrir því að fá fyrrverandi stjórnarmann inn sem fararstjóra hjá félaginu, þó hann hafi ekki lagt til að hann tæki aftur sæti í stjórn. Hann hafi meðal annars sagt að Ferðafélagið yrði að standa í lappirnar og ekki láta dómstól götunnar ráða. „Hvaða skilaboð værum við að senda til þolenda ef viðkomandi væri aftur kominn til starfa fyrir félagið örfáum mánuðum eftir að hann var settur til hliðar?“

Anna Dóra segir það rétt hjá Sigrúnu forseta að hún hafi neitað að mæta á stjórnarfund í júní. Eftir margra mánaða einelti og útlokun af hálfu stjórnar og framkvæmdastjóra hafi henni verið farið að líða svo illa að hún hafi ekki treyst sér til að hitta þennan hóp.

„Mér finnst ekki þægilegt að tala um þetta, en ég var með stöðugan kvíðahnút og gat ekki sofið. Ég treysti mér því ekki til að mæta á þennan fund. Ég lét þau vita af því og að ástæðan væri einelti og útilokun af þeirra hálfu.“

Anna Dóra segir jafnframt í færslunni að hún sé stolt af því sem hún hafi áorkað, þrátt fyrir mikinn mótvind og andstöðu stjórnar.

„Kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti verður að uppræta í íslensku samfélagi og ég vona að þessi erfiða umræða um málefni Ferðafélagsins megi verða hluti af þeirri upprætingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert