Farþegi, sem var um borð í Icelandair-vélinni sem kóresk farþegaflugvél keyrði á í gærkvöldi á Heathrow-flugvellinum í Lundúnum, kveðst ekki enn hafa fengið farangurinn sinn eftir atvikið. Töskurnar séu þó að öllum líkindum á leiðinni þar sem Icelandair hafi fengið leyfi fyrr í dag til þess að sækja þær.
Óhappið í gær varð á meðan íslenska flugvélin var kyrrstæð og var að bíða eftir því að geta tengst hliði. Hin flugvélin, sem var á akbraut, ók þá fram hjá með þessum afleiðingum.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að atvikið yrði rannsakað af breskri rannsóknarnefnd og að lögreglan hefði tekið vélina og allt sem í henni var í sína vörslu.
Erna Sólveig Sverrisdóttir, farþeginn sem um ræðir, er í skólaferð ásamt 50 öðrum nemendum á vegum Verzlunarskóla Íslands í Englandi. Aðspurð kveðst Erna ekki hafa orðið fyrir miklum óþægindum sökum þess að farangurinn vantaði. „Það er allt í góðu. Við gerðum bara það besta úr þessu.“
Hún gerir ráð fyrir að farangurinn skili sér fljótlega en kvaðst þó ekki hafa fengið neina nákvæma tímasetningu. Þá segir hún atvikið ekki hafa sett svartan blett á skólaferðina.
„Þetta var ekkert rosalega hræðilegt. Við vissum ekki að þetta væri svona alvarlegt fyrr en við sáum að við fengjum ekki töskurnar.“