Húsleit var framkvæmd á heimili Guðjóns Valdimarssonar, föður ríkislögreglustjóra, í tengslum við rannsókn lögreglu er varðar ætlaðan undirbúning til hryðjuverka.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókninni vegna vanhæfis í gærmorgun eftir að nafn föður hennar kom upp við rannsókn málsins. Í kjölfarið var gerð húsleit á heimili Guðjóns.
„Ríkislögreglustjóri sagði sig frá málinu um leið og þessar upplýsingar lágu fyrir vegna mögulegs vanhæfis,“ sagði Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn hjá embætti héraðssaksóknara, á upplýsingafundi lögreglu í dag.
Ekki liggur fyrir hver tengsl Guðjóns við málið eru. Þekkt er að hann á umfangsmikið vopnasafn og hefur hann auk þess rekið vopnasölu á netinu um 15 ára skeið, eftir því sem næst verður komist.
Í athugasemd við lagafrumvarp um vopn, sprengiefni og skotelda, sem hann sendi inn árið 2012, sagði hann skotvopnasafnið sitt vera eitt það stærsta í einkaeigu á Íslandi. Kvaðst hann hafa fest verulega fjármuni í vopnum og taldi hann safnið vera að verðmæti um 40 milljónum króna. Hann tók einnig fram að vopnasafnið væri geymt í sérhönnuðu húsnæði og að vopnin væru öll skráð og fyrir þeim leyfi lögum samkvæmt.
Fram kom á blaðamannafundinum í dag að stærstur hluti þeirra skotvopna, sem fundust í aðgerðum lögreglunnar á fimmtudag fyrir viku, væru verksmiðjuframleiddar byssur og væru jafnframt löglega skráðar. Ekkert var uppi látið um á hvern eða hverja byssurnar hefðu verið skráðar.