Síðdegis í gær tók forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hús á rúmlega þrjátíu prjónakonum sem hafa undanfarið setið við og prjónað ullarsokka sem sendir verða á vígstöðvar í Úkraínu í lok október. Prjónakonurnar komu saman í félagsmiðstöð eldri borgara í Gjábakka í Kópavogi.
Þær eru þátttakendur í verkefninu Sendum hlýju frá Íslandi sem er átaksverkefni sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur og miðast að því að prjóna sokka úr íslenskri ull á hermenn í Úkraínu.
Á heimasíðu verkefnisins, sendumhlyju.is, geta prjónarar skráð sig til leiks og eru nú 155 þátttakendur skráðir. Það er þó engin skylda að skrá sig og því ekki ólíklegt að fleiri prjónaglaðir þátttakendur leynist úti í samfélaginu.
Nánar um málið í Morgunblaðinu í dag.