Kaupa Norðurhús við Austurbakka af Landsbankanum

Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir …
Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrarsviðs Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Ríkið hef­ur skrifað und­ir samn­ing um kaup á Norður­húsi við Aust­ur­bakka af Lands­bank­an­um, en um er að ræða tæp­lega 6 þúsund fer­metra bygg­ingu sem er hluti af ný­fram­kvæmd­um bank­ans við Aust­ur­höfn. Kaup­verðið er áætlað um sex millj­arðar miðað við full­frá­gengið hús­næði, eða um eina millj­ón á hvern fer­metra.

Fyr­ir­hugað er að ut­an­rík­is­ráðuneytið færi starf­semi sína í bygg­ing­una, en ásamt því verður hluti henn­ar notaður und­ir sýn­ing­ar- og menn­ing­ar­tengda starf­semi á veg­um Lista­safns Íslands þar sem einkum verður horft til sam­tíma­list­ar. Frá þessu er greint í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins.

Skoða teng­ingu við Hörpu og Lista­há­skóla

Í til­kynn­ing­unni seg­ir að tölu­verð tæki­færi séu til staðar til að tengja fyr­ir­hugað sýn­ing­ar­rými við þá menn­ing­ar­starf­semi sem þegar fari fram í Hörpu og síðar Lista­há­skóla Íslands sem koma á fyr­ir í Toll­hús­inu.

Stuðlaberg komið á hluta nýbyggingar Landsbankans.
Stuðlaberg komið á hluta ný­bygg­ing­ar Lands­bank­ans. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Hús­næðis­kost­ur Stjórn­ar­ráðsins er háður mikl­um ann­mörk­um - hús­næði ráðuneyt­anna er sund­ur­leitt, á mörg­um stöðum og í mörg­um til­fell­um úr­elt. Einnig hef­ur verið lögð áhersla á að ráðuneyti séu staðsett í námunda við hvert annað til að styrkja sam­starf þeirra og skapa tæki­færi til hagræðing­ar og sam­nýt­ing­ar á þjón­ustu. Áfram verður unnið að úr­bót­um í hús­næðismál­um annarra ráðuneyta,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni, en meðal ann­ars er vísað til þess að ut­an­rík­is­ráðuneytið muni næsta haust missa stór­an hluta hús­næðis síns sem það hef­ur haft á leigu.

„Með flutn­ingi ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins í Norður­hús Aust­ur­bakka verður starf­sem­inni komið fyr­ir á ein­um stað í sveigj­an­legu og nú­tíma­legu hús­næði sem verður nýtt með hag­kvæm­um hætti,“ seg­ir jafn­framt í til­kynn­ing­unni.

Hús­næðið verður keypt fyr­ir and­virði sér­stakr­ar viðbót­ar­arðgreiðslu frá Lands­bank­an­um til rík­is­sjóðs sem þegar hef­ur verið innt af hendi og nem­ur kaup­verðið um 6 millj­örðum miðað við full­frá­gengið hús­næði.

Ríkið skoðar kaup á gamla Lands­banka­hús­inu

Sam­hliða þessu hef­ur ríkið ákveðið að ganga til samn­inga við Lands­bank­ann um kaup á gamla Lands­banka­hús­inu við Aust­ur­stræti. „Sú bygg­ing er eitt af helstu kenni­leit­um borg­ar­inn­ar og menn­ing­ar­sögu­lega verðmæt sem slík. Það telst því álit­leg­ur kost­ur að bygg­ing­unni verði fundið verðugt hlut­verk í ís­lensku sam­fé­lagi, t.a.m. und­ir starf­semi dóm­stóla en end­ur­skipu­leggja þarf hús­næðismál þeirra til lengri tíma,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert